Bæjarráð Vestmannaeyja fundaði ásamt bæjarfulltrúum með þingmönnum Suðurkjördæmi í liðinni viku til að ræða samgönguáætlun sem ráðherra hefur kynnt en ekki enn verið mælt fyrir á Alþingi.
Bæjarráð lýsti áhyggjum af samgönguáætluninni í heild sinni eins og hún snýr að Vestmannaeyjum og setti fram meðal annars gagnrýni á áætlaða skerðingu framlaga til reksturs ferja og þar með reksturs Herjólfs, sem og á dýpkunarmál í Landeyjahöfn, þ.e. það fjármagn sem gert er ráð fyrir til dýpkunar.
Útboð á dýpkun Landeyjahafnar, sem þegar hefur verið auglýst, uppfyllir ekki þær kröfur um tæknilega getu og afköst sem bæjarráð hefur ítrekað ályktað um. Skilmálar útboðsins eru með þeim hætti að nánast útilokað er að erlendir aðilar geti lagt fram fjárhagslega hagkvæm tilboð, þrátt fyrir að þeir búi yfir öflugri tæknilegri getu.
Ráðið gagnrýndi einnig frestun á nýrri ekjubrú fyrir Herjólf um mörg ár og ýmsa þætti sem snúa að hafnarmálum. Þar á meðal að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til rannsókna á stórskipakanti, að framkvæmdum við Básaskersbryggju verði frestað, að framlögum til nýs lóðsbáts verði seinkað og að lagt sé til að framlag ríkisins til hafnarbótasjóðs verði skert verulega.
Þá gerði bæjarráð athugasemd við að Herjólfur sé skilgreindur sem almenningssamgöngur í tillögunni, sem ráðið telur engan veginn ásættanlegt.