Vestmannaeyjatogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í Grindavík í morgun að afloknum stuttum veiðiferðum. Vinnslustöðvar Vísis þurftu á hráefni að halda og þá komu togararnir færandi hendi. Rætt er við þá Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey og Egil Guðna Guðnason skipstjóra á Vestmannaey á vef Síldarvinnslunnar.
Jón sagði að farið hefði verið út á þriðjudag og þá hafi verið brunað beint í Reynisdýpið. „Við tókum tvö hol í Reynisdýpinu og þar var ágæt ufsaveiði. Síðan var flúið á Péturseyna vegna veðurs en þar var ágætt skjól. Á Pétursey fékkst mest þorskur og dálítil ýsa með en afli var heldur tregur. Við komum með 45 tonn til löndunar og höldum til veiða á ný um hádegisbil,” sagði Jón.
Egill Guðni sagði að einungis hefði verið veitt í um tvo sólarhringa í túrnum og aflinn hefði verið um 35 tonn. „Við vorum að veiðum á Vík og Pétursey og einnig í Háfadýpinu. Þarna fékkst þorskur og ýsa. Vinnsluna vantaði fisk og því var túrinn ekki lengri. Haldið verður til veiða á ný eftir hádegið,” sagði Egill Guðni.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst