Kvennalið ÍBV í handbolta vann mikilvægan 26:29 sigur á ÍR í 13. umferð Olís deildar kvenna, í Skógarseli í kvöld. ÍR konur skoruðu fyrsta mark leiksins en jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar. Þegar stundarfjórðungur var liðinn var staðan jöfn, 6:6. Eyjakonur náðu hins vegar upp forystunni og voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 11:16. Matthildur Lilja Jónsdóttir fékk að líta beint rautt spjald á 27. mínútu leiksins eftir brot á Söndru Erlingsdóttur.
ÍR konur byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og voru búnar að jafna leikinn eftir tíu mínútur í 19:19. Eyjakonur reyndust sterkari síðustu 20 mínútur leiksins og unnu öruggan þriggja marka sigur. Lokatölur leiksins 26:29. Eftir 13 umferðir er ÍBV á toppnum með 22 stig, tveimur stigum meira en Valur en Valskonur eiga leik til góða. ÍR er í 3. sæti með 14 stig.
Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst í leiknum ásamt Söru Dögg Hjaltadóttur, leikmanni ÍR, með níu mörk. Amalia Frøland varði fimm skot í marki ÍBV og Ólöf María Bjarnadóttir tvö.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 9 mörk, Sandra Erlingsdóttir 7, Birna María Unnarsdóttir 5, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 2, Amelía Dís Einarsdóttir 2, Ásdís Halla Hjarðar 2, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1, Ásta Björt Júlíusdóttir 1.
Í næstu umferð er sannkallaður stórleikur þegar ÍBV tekur á móti Val, sunnudaginn 25. janúar kl. 14:00.


















