„Þessi niðurstaða hefur legið í loftinu um tíma. Þegar nýkjörinn formaður VG tekur fram fyrir hendur forsætisráðherra og tilkynnir um kosningar að vori. Það var pólitískur dónaskapur af samstarfsráðherra sem veit hver fer með þingrofsvaldið,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þegar hann leit yfir sviðið eftir að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra ákvað að slíta stjórnsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.
„Þau mál sem að okkur sjálfstæðismönnum í samstarfinu snúa fyrst og fremst lá fyrir samkomulag um lúkningu þeirra. Þar á ég við um útlendingamál, orkumál og málaskrá ríkisstjórnarinnar sem VG tilkynnti eftir landsfund flokksins, að ekki stæði lengur til að standa við þá samninga sem ríkisstjórnarsamstarfið byggði á.
Það var því einkennilegt að bjóða upp á það í síðustu viku að gera nýjan samning um mál ríkisstjórnarinnar, þegar fyrir lá samningur sem átti ekki að efna. Þá var framkoma tveggja matvælaráðherra vegna hvalveiða óþolandi framkoma við lögbundna atvinnugrein sem nýtur atvinnufrelsis samkvæmt Stjórnarskrá, tafir í orkumálum og fleiri málum þar sem ekki stóð steinn yfir steini í stjórnsýslumeðferð málanna og tafir í ríkisstjórn. Niðurstaðan var því augljós,“ segir Ásmundur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst