Hausttónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja fóru fram í gær í Hvítasunnukirkjunni og heppnuðust með eindæmum vel. Fjölmenni lagði leið sína á tónleikana, sem eru orðinn rótgróinn liður í menningarlífi Eyjamanna – hefð sem nær lengra aftur en elstu menn muna.
Lúðrasveit Vestmannaeyja var stofnuð 22. mars 1939 og hefur starfað óslitið síðan þá, sem er einstakt afrek í samfélagi á stærð við Vestmannaeyjar. Í ávarpi sveitarinnar var sérstaklega þakkað fyrir þann ómetanlega stuðning sem borist hefur í gegnum tíðina frá bæjaryfirvöldum, fyrirtækjum og einstaklingum.
„Án þessa stuðnings værum við ekki neitt,“ segir í skilaboðum lúðrasveitarinnar, sem einnig minnti á mikilvægi styrktarfélaga í rekstri og uppbyggingu starfsins. Fjölmargir styrktaraðilar leggja sveitinni lið árlega.
Að vanda bauð lúðrasveitin upp á líflegt og fjölbreytt prógramm þar sem áherslan er fyrst og fremst á að lögin séu skemmtileg bæði í flutningi og áheyrn og sum myndu seint teljast hefðbundin lúðrasveitarlög. Á dagskránni voru til dæmis lög eftir Muse og Rage against the machine auk þess sem sveitin spilaði skemmtilega syrpu með lögum eftir Billy Joel. En á dagskránni voru líka fastir liðir eins og mars eftir Sousa og lög eftir Oddgeir Kristjánsson.
Á milli laga fór stjórnandinn, Jarl Sigurgeirsson á kostum í kynningum á lögum og laumaði skemmtilegum fróðleiksmolum til tónleikagesta. Í máli hans kom meðal annars fram að alls væru spilararnir á tónleikunum þrjátíu og átta en margir þeirra eru brottfluttir Eyjamenn og aðrir vinir sveitarinnar sem hafa aldrei búið í Eyjum en koma á hverju ári til að veita lúðrasveitinni lið á þessum tónleikum.
Fjölmargir gestir lýstu ánægju sinni með tónleikana að þeim loknum og greinilegt að þessi árlegi viðburður er mikilvægur hluti af menningardagatali Eyjanna. Lúðrasveitin sendir öllum sem lögðu leið sína á tónleikana innilegar þakkir fyrir komuna, sem og stuðningsaðilum og styrktarfélögum sem gera starfsemi sveitarinnar kleift ár eftir ár. Óskar Pétur Friðriksson ljósmyndari Eyjafrétta sat tónleikana og myndaði sveitina.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst