„Það er alveg ömurlegt þegar nokkrir einstaklingar skemma svona viðburð sem hefur kostað mikla vinnu að skipuleggja,” segir Kristinn E. Árnason, varaformaður nemendafélags Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, en mikil slagsmál brutust út á útskriftarballi skólans sem haldið var í Týsheimilinu á föstudagskvöld.
Lögreglan í Vestmannaeyjum var þrisvar sinnum kölluð á staðinn vegna slagsmála og dyravörður missti tönn í átökum við ballgest. Ballið var stöðvað klukkan þrjú og staðurinn rýmdur. Að sögn lögreglu var enginn handtekinn vegna látanna en þó má búast við eftirmálum vegna tannarinnar.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins brutust slagsmálin út þegar piltur úr Vestmannaeyjum hugðist kýla Selfyssing sem hann kvaðst eiga eitthvað sökótt við. Mennirnir slógust og að lokum fór svo að Selfyssingurinn þorði ekki út af ballinu nema í lögreglufylgd af ótta við pilta sem biðu hans fyrir utan staðinn og ætluðu að lúskra á honum.
Kristinn segir að slagsmálin hafi einskorðast við anddyrið og bílaplanið en þeir sem hafi verið inni á ballinu sjálfu hafi skemmt sér vel.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst