Mjög rólegt var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt og gisti enginn fangageymslu.

Fíkniefnamál eru orðin 13 talsins og öll svo kölluð neyslumál fyrir utan eitt mál þar sem talið er að um sölu hafi verið að ræða. Þar var aðili tekinn með nokkurt magn af hvítu efni sem talið er kókaín auk nokkurs magns af MDMA. Á sama tíma í fyrra voru fíkniefnamálin 24 talsins en sambærilegt viðbragð er á hátíðinni í ár og í fyrra.

Töluverð rigning var í Vestmannaeyjum í gær og nótt en ekki virtist það slá á gleðina hjá gestum þjóðhátíðar því mikill fjöldi var í Herjólfsdal í gærkvöldi og frameftir nóttu. Áætlar lögreglan að milli 10 til 11 þúsund gestir hafi verið á hátíðarsvæðinu þegar mest var. Herjólfur siglir 5 ferðir í dag og mun því töluverður gestafjöldi bætast við það sem fyrir er.

Daglegur samráðsfundur var haldinn kl. 13:00 og þar voru allir viðbragðsaðilar sammála um að allt hafi gengið vel og að nóttin hafi verið með allra rólegasta móti.