Árlegir hausttónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja verða haldnir í Hvítasunnuhöllinn Vestmannabraut laugardaginn 10.nóvember kl.16:00.

Tónleikarnir eru svokallaðir Styrktarfélagatónleikar, en Lúðrasveitin á sér sveit öflugra bakhjarla sem greiða árlega hóflega upphæð, sem nú er 3 þúsund krónur, til styrktar starfinu. Við höldum þessa tónleika árlega og bjóðum styrktarfélögum okkar ásamt mökum. Aðrir gestir eru velkomnir og greiða þá aðgangseyri á staðnum sem er 2 þúsund krónur í ár.

Styrktarfélagakerfið er einstakt og er stór þáttur í því að viðhalda lúðrasveiatarstarfinu hér í Eyjum. Kunnum við styrktarfélögum okkar bestu þakkir fyrir. Einnig hafa fyrirtæki í Eyjum og bæjaryfirvöld verið okkur hliðholl þegar við höfum óskað eftir þeirra stuðningi. Það er mikils virði að finna þann samfélagslega stuðning við störf okkar og hvetur okkur áfram á sömu braut. Þessi stuðningur er ein af lykilforsendunum fyrir lúðrasveitarstarfinu,
Á efnisskránni eru að vanda fjölbreytt verk við allra hæfi. Allt frá harðkjarna lúðrasveitarmörsum upp í ljúfar poppmelodíur.

Sérstakir gestir á tónleikunum verða félagar úr Skólalúðrasveit Vestmannaeyja, en sveitin fagnar 40 ára afmæli sínu á þessu ári. Munu krakkarnir spila með í völdum lögum.

Vonumst til að sem flestir sjái sér fært að mæta. Við lofum góðri skemmtun.

Með Lúðrasveitar kveðju
Lúðrasveit Vestmannaeyja.