Árlegir hausttónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja fara fram í Hvítasunnukirkjunni laugardaginn 11.nóvember kl.16:00. Allt verður þar með hefðbundnu sniði hvað varðar efnistök og framkvæmd. Á efnisskránni er að vanda fjölbreytt úrval verka úr ýmsum áttum og það sama má reyndar segja um félaga sveitarinnar, en þeir eru að vanda alls kyns og úr ýmsum áttum.

Miðaverð er 2500 kr. og eru miðar seldir við innganginn. Frítt er fyrir börn (yngri en 18 ára).

Hefð er fyrir því að styrktarfélagar greiði ekki aðgangseyri að þessum tónleikum og er sami háttur á núna. Styrktarfélag Lúðrasveitar Vestmannaeyja er skipað styrktarmeðlimum sem árlega greiða ákveðið gjald til lúðrasveitarinnar. Gjaldið er nú 4000 kr. Fjöldi manns í Vestmannaeyjum og reyndar á fasta landinu líka, styrkja árlega starf Lúðrasveitarinnar með þessu fjárframlagi. Er einstakt að finna þann stuðning frá almenningi svo ekki sé talað um hvað það gerir fjárhag svo lítils félags að eiga slíkan stuðning að.

Sem þakklætisvott fá styrktarfélagar miða fyrir tvo á árlega hausttónleika sveitarinnar. Hægt er að gerast styrktarmeðlimur með því að hafa samband við formann Lúðrasveitarinnar, eða aðra meðlimi. Best er að senda upplýsingar með nafni, kennitölu og heimilisfangi á netfangið [email protected].

Það er vert að minnast einnig á stuðning fyrirtækja og bæjaryfirvalda við sveitina í gegn um tíðina. Árlega óskum við eftir styrkjum frá nokkrum fyrirtækjum í Vestmannaeyjum og er okkur alltaf vel tekið í þeim umleitunum. Einnig hefur Vestmannaeyjabær staðið þétt við bakið á Lúðrasveitinni í formi styrks og aðstöðu. Það er ekki sjálfgefið að reka lúðrasveit í bæjarfélagi sem okkar, en þéttur stuðningur samfélagsins gerir það mögulegt og fyrir þann stuðning erum við þakklát.

Um leið og við þökkum stuðninginn undanfarna áratugi, bjóðum við ykkur til þessarar tónlistarveislu í Hvítasunnukirkjunni. Vonumst við til að sjá sem flesta og minnum á að hægt er að gerast styrktarmeðlimur við innganginn, eða með tölvupósti á ofangreint netfang.

Lúðrasveit Vestmannaeyja