Um helgina léku meistaraflokkar ÍBV, karla og kvenna í knattspyrnu, sitthvora tvo æfingaleikina, bæði lið undir stjórn nýs þjálfara.

Það er nú reyndar erfitt að halda því fram að Jón Óli Daníelsson sé nýr þjálfari kvennaliðs ÍBV en hann tekur við því að nýju eftir fjögurra ára fjarveru sem aðalþjálfari liðsins.

Stelpurnar léku fyrri leikinn gegn ÍA í Akraneshöll á föstudaginn. Byrjunarlið ÍBV var svo skipað; Guðný Geirs, Júlíana, Margrét Íris, Birgitta, Þóra Björg, Guðrún Bára, Ingibjörg, Sísí Lára, Clara, Kristín Erna og Shaneka.
Það var greinilegt að Sísí Láru líður vel að vera komin aftur til ÍBV og gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk í 3-1 sigri Eyjastúlkna. Hitt markið skoraði Júlíana.

Á laugardeginum mættu stelpurnar svo liði HK/Víkings. Endaði sá leikur með eins marks tapi. Liðið var skipuðu; Guðný Geirs, Júlíana, Margrét Íris, Birgitta, Þóra Björg, Guðrún Bára, Sísí Lára, Kristín Erna, Shaneka, Ragna Sara, Ásta María.

Tvö töp hjá strákunum
Strákarnir léku sína fyrstu leiki undir stjórn Pedró Hipolito um helgina.
Á föstudaginn mættu þeir ÍR. Ingólfur Sigurðsson, sem átti gott tímabil með KH í 3. deildinni í sumar og hefur verið að æfa með ÍBV undanfarið, kom ÍBV yfir. Forystan hélt þó ekki og endaði leikurinn með 3-1 sigri ÍR sem mun leika í 2. deild næstu leiktíð. Bæði lið skiptu nánast alveg um lið í hálfleik.

Á laugardaginn héldu strákarnir svo suður fyrir fjall og mættu Selfossi í brjáluðu veðri.
Ingólfur Sigurðsson, Guðmundur Magnússon og Matt Garner spiluðu með ÍBV gegn Selfossi. En Matt Garner lék með KFS síðasta sumar.
Fór svo að aðeins eitt mark var skorað en það var Eysteinn Aron Bridde sem það gerði fyrir Selfoss.