Herjólfur siglir til Þorlákshafnar í dag og á morgun vegna hárrar öldu og veðurs. Ölduspáin er hins vegar nokkuð hagstæð Landeyjahöfn á laugardag og fram í næstu viku.
Í síðustu viku var siglt til Landeyjahafnar en þó þurfti að aðlaga áætlun eftir sjávarföllum sökum ónógs dýpis.

Ágæt spá er um eftir helgi en tíminn verður þó ekki nýttur til dýpkunar.

Ástæðan er sú að nú hefur samningur við dýpkunarskipið GALILEI 2000 runnið sitt skeið og hafa Belgarnir því haldið í heimahaga.

Nýverið var samið við Björgun að sjá um dýpkun við Landeyjahöfn til ársins 2021. Samningurinn tekur þó ekki gildi fyrr en 1. mars 2019 en þó er ákvæði um að hægt sé að kalla þá til fyrr ef þurfa þykir.

„Það lítur ekki þannig út, því miður. Skipin bundin í öðrum verkefnum,“ sagði G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar aðspurður um hvort næsta vika yrði notuð til dýpkunar.
„Það verður athugað betur með að fá Björgun til að dýpka ef aðstæður skapast til dýpkunar og það er taldar yfirgnæfandi líkur á að nægjanlegt dýpi náist. Ef það gengur ekki verður að leitað til annarra aðila,“  sagði Pétur og bætti við. „Þar sem reynslan hefur sýnt að dýpkanir á þessum árstíma hafa litlu skilað er ekki talin ástæða til að hafa fastan samning á þessu tímabili en halda opnum möguleikanum að kalla sérstaklega til verktaka skapist raunhæfar aðstæður til dýpkunar sem myndu leiða til þess að höfnin væri opin um einhvern tíma í kjölfarið. Vandamálið snýr auðvitað einnig að ölduhæðinni varðandi siglingarnar.“

Eftir sitjum við Eyjamenn enn og aftur með sárt ennið og horfum á höfnina lokast þar til einhverjum öðrum, sem enga hagsmuni hefur að gæta, hentar að opna hana.