Á fundi Framkvæmda- og hafnarráðs þann 5. september 2018 var ákveðið að skipa starfshóp til að skoða betur staðsetningar fyrir framtíðarhúsnæði Slökkvilið Vestmannaeyja. Á fundinum voru þeir Guðmundur Ásgeirsson, Guðlaugur Friðþórsson og Sigursveinn Þórðarson skipaðir í hópinn ásamt Ólafi Snorrasyni framkvæmdastjóra og Friðrik Páli Arnfinnssyni slökkviliðsstjóra. Auk þeirra hefur Sigurður Smári Benónýsson unnið með hópnum.

Alta ráðgjöf var fengin til þessa að vinna kostamat fyrir nýja staðsetningu. Kostamatið var unnið út frá skipulagsþáttum og hagrænum atriðum annars vegar, og hins vegar út frá skilgreindum umhverfisþáttum í samræmi við aðferðarfræði umhverfismats áætlana. Skýrslan nýttist hópnum vel í vinnunni. PZ teiknistofa vann kostnaðargreiningu á breytingum og viðbyggingum.

Ákveðið var að skoða eftirfarandi þætti:

  1. Staðsetning
  2. Stofnkostnaður
  3. Útfærsla húsnæðis og breytingar á því
  4. Kostir
  5. Gallar

Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að tveir kostir væru vænlegastir, annars vegar viðbygging í norður við austurenda áhaldahúss og nýbygging í Löngulág.

Viðbygging við áhaldahús

  1. Staðsetning miðsvæðis í bænum. Aðkoma fyrir slökkviliðsmenn í útkalli nokkuð góð. Útkeyrsla á Heiðarveg þokkaleg, en þó betri en á núverandi slökkvistöð.
  2. Áætlun upp á 210 milljónir. Ófyrirséð 15%.
  3. Byggt nýtt ca. 600 fm. hús norðan við austurenda áhaldahúss og það tengt við áhaldahús. Húsgerð svipar mjög til eldra húss þ.e. stálgrind eða límtré með klæðningu. Aðstaða fyrir slökkvilið yrði í nýbyggingu og skrifstofur og starfsmannaaðstaða o.s.frv. samnýtist með Þjónustumiðstöð.
  4. Kostir eru þeir að tvær stofnanir verða undir einu þaki, samnýting á aðstöðu þar af leiðandi, rekstrarleg hagkvæmni. Liggur fyrir að laga þarf starfsmannaaðstöðu í áhaldahúsi fyrir núverandi starfsemi fyrir a.m.k 25-30 milljónir. Deiliskipulag er í vinnslu, getur klárast á 2-3 mán. Því væri hægt að hefja framkvæmdir flótlega. Tækja- og bílasalur slökkviliðs fer í nýtt húsnæði. Staðsetning á nánast sama stað og núverandi stöð.
  5. Gallinn er sennilega helstur sá að þetta er ekki besti kosturinn staðsetningarlega, þröngt að komast austur í bæ. Fækkar bílastæðum en hægt að vinna það upp á lóð núverandi slökkvistöðvar og framan við inngang í áhaldahús.

Nýbygging í Löngulág

  1. Staðsetning er miðsvæðis með gott aðgengi að og frá slökkvistöð. Útkeyrsla á Kirkjuveg til allra átta er mjög greið.
  2. Áætlun upp á 250 milljónir. Ófyrirséð 15%.
  3. Byggt nýtt 7-800 fm. hús með öllu því sem slökkvilið þarf að hafa.
  4. Kostir eru þeir að byggt er nýtt hús á besta stað í bænum fyrir slökkvistöð og sjúkrabíla með tilliti til öryggissjónarmiða.
  5. Gallar eru að skipulag er ekki til fyrir þetta svæði og gætu skipulagsmál tekið á annað ár. Það gæti haft í för með sér að slökkviliðið yrði ekki komið í viðunandi húsnæði fyrr en eftir 3-4 ár. Jarðvinna frekar dýr ásamt því að færa þarf stofnlagnir hitaveitu. Fara þyrfti í endurbætur á mannaaðstöðu í áhaldahúsi, þáttur sem dettur út í lið A sem er kostnaður upp á a.m.k 25-30 milljónir. Staðsetning er umdeild og gætu risið upp háværar og langvinnar deilur af því tilefni sem gætu dregið verkið enn frekar.

Niðurstaða
Ráðið þakkar fyrir minnisblaðið og leggur til að byggð verði slökkvistöð norðan við áhaldahús með sameiginlegri aðstöðu með Þjónustumiðstöð skv. tillögum vinnuhóps. Ráðið óskar eftir því við Umhverfis- og skipulagsráð að gert verði ráð fyrir viðbyggingu við áhaldahús við vinnu á deiliskipulagi svæðisins.