Tónlistamaðurinn Helgi Rasmussen Tórzhamar sendi nýverið frá sér nýtt lag. Þar er á ferðinni lofsöngur til Færeyja, þaðan sem Helgi er ættaður. „Lagið er samið útfrá fallegu ljóði sem heitir Færeyjasýn sem Amma mín, Jórunn Emilsdóttir Tórshamar, orti um Færeyjar. Upprunalega ljóðið er töluvert lengra en það sem kemur fram í texta lagsins. Ég notaði aðeins tvö vers úr ljóði hennar og bætti svo sjálfur við viðlagi og færeyska versinu,” sagði Helgi í samtali við Eyjafréttir. „Lagið er búið að vera lengi í vinnslu. Byrjaði að vinna fyrst í því 2010 en var aldrei nógu ánægður með útkomuna. Ég ákvað að leggja allt mitt púður fyrst í þetta lag af 12 lögum plötunnar Brekka, sem geymir lög mín við ljóð ömmu  sem hefði orðið 100 ára á þessu ári.

Ég vildi risastórt “sánd” á þetta lag. Þess vegna er 80% lagsins tekið upp í gamla bíósalnum í Hvítasunnukirkjunni því betri sal færðu ekki til upptöku. Til gamans má geta að ef vel er hlustað í byrjun og enda lagsins má  heyra marrið í sviðinu þar sem við erum að stappa. Lagið er tekið upp á um 150 rásum, sem segir mikið til um stærð lagsins,” sagði Helgi stoltur og bætti við. „Ást mín til Færeyja er ólýsanleg og ég held að sú ást heyrist svolítið í Færeyskum keim lagsins.”

Lagið er aðgengilegt á streymisveitunni Spotify og má nálgast hér að neðan.