Oddfellow opnar dyr sínar fyrir almenningi á sunnudaginn kemur, með opnu húsi á regluheimili Oddfellow í Vestmannaeyjum, Herjólfsbæ að Strandvegi 45. Opið verður milli kl. 13 og 15. „Hvetjum við alla til að koma og kynna sér starfsemina og fá sér vöfflukaffi,“ segir í tilkynningu frá reglunni.

„Í tilefni af 200 ára afmæli Oddfellowreglunnar verða öll Regluheimili landsins opin sunnudaginn 1. september. Oddfellowreglan á Íslandi er grein af hinni bandarísku Oddfellowreglu IOOF sem stofnuð var árið 1819. Bræðrastúkurnar eru 28 og Rebekkustúkurnar 18. Oddfellowheimilin á Íslandi eru 10 talsins sem reglusystkini og aðstandendur þeirra hafa afnot af. Í Vestmannaeyjum eru starfandi tvær stúkur, Bræðrastúka nr. 4 Herjólfur sem var stofnuð 24. maí 1925 og Rebekkustúkan nr. 3 Vilborg sem var stofnuð 20. september 1958 og hafa báðar stúkunnar sitt heimili í Herjólfsbæ.

Einkunnarorð Oddfellowreglunnar eru: VINÁTTA – KÆRLEIKUR – SANNLEIKUR og tákna hlekkirnir þrír þessi einkunnarorð. Hugsjónir Oddfellowreglunnar byggja á siðfræðilegum og mannúðlegum grunni og vinna félagar hennar því ötullega að líknarstarfi og mannúðarmálum.“