Eins og fram hefur komið í fréttum og fréttatilkynningum síðustu daga  þá hafa komið upp tilfelli af COVID-19 smitum í Vestmannaeyjum síðustu daga. Í nær öllum tilfellum hefur verið um að ræða smit sem rekja má til íþróttakappleikja á höfuðborgarsvæðinu sem Eyjamenn sóttu sem áhorfendur eða leikmenn og bein smit frá þeim. Mjög mikilvægt er að stöðva útbreiðsluna áður en hún kemst á flug og eins og flestir hafa tekið eftir þá hefur verið gripið til tímabundinna aðgerða í því sambandi síðustu daga. Þar með talið lokun leikskólans Sóla vegna smits sem kom upp hjá starfsmanni, tímabundin úrvinnslukví hjá heilum árgangi á miðstigi grunnskólans vegna mögulegra tengsla, lokun Íþróttamiðstöðvarinnar vegna smits hjá starfsmanni og nú síðast tímabundin úrvinnslukví hjá nemendum 1.-4. bekkjar GRV vegna smits sem staðfestist hjá kennara í gær.

Óvenjumikið hefur verið um veikindi hjá nemendum í 7. bekkjum GRV og í þeim bekkjum eru nemendur sem hafa verið veikir og tengjast einstaklingum sem eru með staðfest smit. Vegna þessa var í varúðarskyni ákveðið að setja alla nemendur í þessum bekkjum og starfsfólk í tímabundna úrvinnslukví á meðan málið var skoðað nánar. Tekin hafa verið sýni hjá nemendum  í þessum bekkjum sem eru lasnir og í nokkrum tilfellum öðrum fjölskyldumeðlimum sem voru með grunsamleg einkenni. Nú er búið að rannsaka öll sýnin úr þessum hóp og voru þau öll neikvæð, þ.e.a.s. engin sýni sýndu merki um veiruna sem veldur COVID-19. Þar af leiðandi verður á morgun úrvinnslukví aflétt af öllum þeim nemendum í 7. bekk og starfsfólki sem ekki eru í sóttkví af öðrum ástæðum, en framlengja þarf henni þar til þeirri úrvinnslu er lokið.

Í gær staðfestist smit hjá einum kennara í Grunnskóla Vestmannaeyja. Á sambærilegan hátt og gert var með nemendur og starfsfólk í 7. bekk var í gær ákveðið að setja nemendur í 1.-4. bekk ásamt starfsfólki Hamarskóla í tímabundna úrvinnslukví fram á sunnudag á meðan málið er skoðað. Smitrakning er langt komin en er ekki lokið. Enn lítur út fyrir að nemendur þurfi ekki að fara í sóttkví sérstaklega vegna þessa tilfellis, en nokkrir starfsmenn þurfa að að fara í sóttkví. Sóttkvíin stendur í 14 daga frá síðustu mögulegu útsetningu og því er ekki víst að lok sóttkvíar verði á sama degi hjá öllum.

Allir nemendur 1.-4. bekkjar og kennarar eru í úrvinnslukví til morguns og ákveðið var fyrr í dag að útvíkka skilgreiningu þannig að það sama gildi um aðra þá sem eru búsettir á sama heimili á meðan á úrvinnslukvínni stendur.

Foreldrar nemenda í öllum fjórum árgöngunum voru fyrr í dag beðnir um að svara spurningalista varðandi veikindi og var svörun ótrúlega góð, nálægt 100%, og er frábært hvað foreldrar hafa staðið vel að verki í þeim efnum. Við þurfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Í framhaldi af innsendum svörum hafa um 30 börn og fjölskyldumeðlimir með einkenni öndunarfærasýkingar verið kallaðir inn í sýnatökur í kvöld og í fyrramálið. Herjólfur fer væntanlega bara eina ferð á morgun og verður ferð morgundagsins sérstaklega seinkað til kl. 9 þannig að sýnin sem tekin verða í fyrramálið komist líka til rannsóknar á morgun. Niðurstöður úr sýnatökum í dag og í fyrramálið fara í úrvinnslu á Veirufræðideild Landspítala eftir hádegi á morgun og má búast við að niðurstöður liggi fyrir um kvöldmatarleytið. Ef þessi sýnataka kemur vel út verður úrvinnslukví aflétt af þeim nemendum sem ekki eru í sóttkví af öðrum ástæðum. Ekki er búið að taka ákvörðun um skólahald á mánudag en ljóst er að það verður með breyttu sniði.

Í dag bárust niðurstöður úr sýnatökum gærdagsins. Búist var við að talsvert af sýnum yrðu jákvæð, en talsvert af sýnum var tekið hjá einstaklingum sem höfðu verið í nánum samskiptum við einstaklinga með staðfest smit. Jákvæð svörun var þó heldur meiri en búist var við. Vinna við smitrakningu og sóttkvíun í tengslum við þessi nýju tilfelli fór strax í gang þegar niðurstaða fór að berast og er enn í gangi.

Meðal annars vegna fjölgunar tilfella í dag var sú ákvörðun tekin að herða reglur um samkomubann, eins og kynnt var í tilkynningu aðgerðastjórnar Vestmannaeyja fyrr í dag.

Markmiðið með þessum aðgerðum öllum er að hefta sókn COVID-19 faraldursins inn í samfélagið hér í Eyjum og við biðjum alla íbúa að taka þátt í þessu verkefni með okkur til að hægja á framsókn veirunnar og vernda þá sem eru í áhættuhópum.

Samtals greindust 16 tilfelli í Vestmannaeyjum í dag og eru staðbundin smit því orðin 27 talsins. Af þeim 16 smitum sem greindust í dag voru 10 þegar í sóttkví. Einum einstaklingi sem sýni var tekið hjá í gær hrakaði í dag og þurfti innlögn á sjúkrahús. Sýnið reyndist jákvætt með tilliti til COVID-19. Í samræmi við landsáætlanir var sjúklingurinn því fluttur til innlagnar á Landspítalann með sjúkraflugvél. Fjöldi einstaklinga í sóttkví eins og staðan er núna er 397.

Að óbreyttu er ekki gert ráð fyrir frekari tilkynningum frá aðgerðarstjórn í Vestmannaeyjum fyrr en annað kvöld.

Aðgerðastjórn