Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær, samþykkti bæjarstjórn að ganga til kaups á kjallara, jarðhæð og hluta efri hæðar í húsi Íslandsbanka hf. að Kirkjuvegi 23.  Ástæðan fyrir ákvörðuninni er sú að hún þykir hagkvæm fyrir Vestmannaeyjabæ og fellur vel að starfsemi og skipulagi bæjarskrifstofa Vestmannaeyja.

Ritstjóri Eyjar.net skrifar grein í vefmiðil sinn í tilefni af þessum kaupum.  Þar er að talsverðu leyti farið rangt með fjárhæðir og því kemst ritstjóri að rangri niðurstöðu í grein sinni.

Fyrir það fyrsta þá er Vestmannaeyjabær ekki að kaupa nema hluta af 2. hæð Íslandsbanka.  Af því leiðir að bærinn er ekki seljandi þess sama húsnæðis. Fyrir lá að bærinn hafði ekki áhuga á að kaupa skrifstofuhúsnæði sem nú hýsir bókhalds-og lögmannsstofu á 2. hæð hússins.  Íslandsbanki vildi hins vegar ekki selja hluta síns húsnæðis heldur allan sinn eignarhluta.  Bænum stóð þannig ekki til boða að kaupa bara þann hluta sem bærinn vildi og bærinn hafði ekki áhuga á að kaupa allan eignarhlut Íslandsbanka.

Í viðræðum við fulltrúa Íslandsbanka var Vestmannaeyjabær reiðubúinn til þess að kaupa húsnæði sem tilheyrir bænum á 85 m.kr. Íslandsbanki var reiðubúinn til að selja húsið á 100 m.kr. og því náðist samkomulag milli Lögmannsstofunnar og Íslandsbanka um kaupverð á hluta 2. hæðarinnar fyrir 15 m.kr.

Vestmannaeyjabær er því ekki að “selja” frá sér húsnæði heldur lá alltaf að bærinn keypti aðeins þann hluta húsnæðisins sem hann hafði þörf fyrir.

Varðandi kaupverð þá liggur fyrir að bærinn kaupi sinn eignarhluta á kr. 85 milljónir.  Kaupverð per/fm. er kr. 138 þúsund.  Það verð sem ritstjóri Eyjar.net vísar til í grein sinni sem verð per/fm. kr. 206 þús, er ekki kaupverð, heldur áætlun bæjarins um heildarkostnaði per/fm. við húsnæði það sem bærinn kaupir þ.e. kaupverð auk nauðsynlegra breytinga við húsnæðið vegna flutninga á starfsemi bæjarins.  Þessar upplýsingar komu skýrt fram í minnisblaði bæjarins.

Kaupverð þess hluta sem Lögmannsstofa Vestmannaeyja ehf. kaupir er u.þ.b. kr. 100 þúsund per/fm. en sá hluti húsnæðisns hefur ekki verið endurnýjaður.

Bærinn kaupir jarðhæðina sem er mikið endurnýjuð, s.s. loftræstikerfi, tölvulagnir, gólfefni ofl.  Þá kaupir bærinn einnig fundarsal og eldhús á efri hæð sem er einnig endurnýjað. Miðað við allt framangreint þá getur kaupverð beggja eignarhlutanna varla talist annað en sanngjarnt fyrir báða aðila.

Ritstjóri Eyjar.net gerir nokkuð úr því að kaupverð þess hluta húsnæðisins sem Lögmannsstofa Vestmannaeyja ehf. kaupir sé “bílskúrsverð”.  Má af því ráða að ritstjórinn telji það kjarakaup hjá Lögmannsstofunni og væntanlega eftirsóknarvert. Af því tilefni þá er rétt að benda á að til sölu er sambærilegt skrifstofuhúsnæði, þ.á.m. núverandi ráðhús bæjarins, á mjög sambærilegu verði og skrifstofuhúsnæði á 2. hæð í húsi Íslandsbanka var keypt á.

Vestmannaeyjabær telur umrædd kaup  hagkvæm fyrir bæinn. Með kaupunum er gert ráð fyrir að starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs verði komið fyrir á jarðhæð hússins. Við mat á kostnaði við einstaka valmöguleika, þ.e. kaup á húsnæði, endurbætur, breytingar og aðlögun að starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviði, voru  kaup á húsnæði Íslandsbanka metin besti kosturinn. Aðgengi að húsinu er gott og fjöldi bílastæða við það. Nægt pláss er á jarðhæðinni og tiltölulega auðvelt að aðlaga húsnæðið að starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs. Kjallarann er hægt að nýta undir munageymslu fyrir söfn bæjarfélgagsins. Hægt er að koma starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs fyrir í húsnæðinu á skömmum tíma þar sem ekki þarf að ráðast í miklar breytingar.

Heimaey fasteignasala hefur annast um sölu eignanna en eignin var í sölumeðferð m.a. hjá þeirri fasteignasölu og var ásett verð 117 milljónir.

Eðlilegast hefði verið fyrir ritstjóra Eyjar.net að leita eftir upplýsingum frá bæjarstjóra eða forsvarsmanna lögmannsstofunnar um málið áður en ráðist var í skrif sem augljóslega eru ónákvæm og ranglega farið með útreikning og staðreyndir.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri

Jóhann Pétursson, stjórnarformaður Lögmannsstofu Vestmannaeyja