Eins og Eyjafréttir greindu frá í byrjun ágúst þótti mildi að ekki urðu slys á fólki þegar landgangur við Herjólf hrundi til jarðar. Verið var að setja upp nýja göngubrú og grænt ljós komið á notkun hennar þegar hún hrundi.

Við heyrðum í G. Pétri Matthíassyni upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar með stöðuna á brúnni og hvort málið væri til rannsóknar hjá þeim.
„Festingar á landganginum voru ekki nógu langar svo brúin rann út úr sleðanum,” sagði Pétur aðspurður hvað hefði gerst. „Starfsmenn Vegagerðarinnar skoðuðu aðstæður mánudaginn 10.8.2020 og tóku út lagfæringar sem Skipalyftan hafði gert sem hindra það að brúin geti runnið úr sleðanum. Búið er að reyna brúna í hæstu og lægstu stöðu og tryggja að slíkt geti ekki komið fyrir aftur.“
Pétur sagði mistökin liggja í hönnun og smíði á brúnni að því leyti að festingar voru of stuttar. „Það er fallvörn til staðar en þar sem brúin rann úr sleðanum virkaði hún ekki sem skyldi og brúin féll til jarðar,“ sagði Pétur.

Þessa dagana er verið að vinna í lokafrágangi á brúnni og setja upp árekstrarvörn svo bílar rekist ekki undir hana þegar ekið er undir hana. „Búið er að lengja festingarnar og bæta þær sem tryggja það að brúin getur ekki farið úr sleðanum aftur. Sama útfærsla er á landganginum í Landeyjahöfn,“ sagði G. Pétur að lokum.