Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja í gær var sex mánaða rekstaryfirlit Vestmannaeyjahafnar meðal annars rætt. Á fundi ráðsins þann 14. júlí lýsti ráðið yfir miklum áhyggjum af rekstarlegri stöðu hafnarinnar. Var framkvæmdarstjóra þá í samráði við formann ráðsins falið að leggja fram tillögur til að mæta tekjubresti. Kynnti hann þessar hugmyndir á fundi ráðsins í gær.

Niðurstaðan er að ráðið leggur áherslu á að halda uppi þjónustustigi hafnarinnar á sama tíma og nauðsynlegt er að huga vel að útgjöldum.
Ráðið horfir frekar til þess að ekki sé stofnað til nýrra útgjalda sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun og beinir því jafnframt til bæjarstjórnar að fresta ráðningu í nýja stöðu hafnarstjóra og staðan verði endurmetin við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.