Málefni Hraunbúða voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Bæjarstjóri greindi frá fundi sem hún átti ásamt embættismönnum bæjarins með forstjóra og fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands um uppsögn á samningi Vestmannaeyjabæjar og stofnunarinnar, um rekstur Hraunbúða. Bæjarstjórn Vestmannaeyja sendi frá sér sameignlega bókun um málið.

“Bæjarstjórn lýsir áhyggjum sínum af skeytingarleysi ríkisins hvað rekstur hjúkrunarheimila í landinu varðar. Mörg sveitarfélög munu ekki framlengja rekstrarsamninga sínum við ríkið vegna lágra daggjalda sem standa engan veginn undir rekstri heimilanna samkvæmt kröfulýsingu Sjúkratrygginga. Bæjarstjórn tók þá erfiðu ákvörðun að segja upp núverandi samningi um rekstur Hraunbúða í sumar.
Lítið kom fram á fyrsta fundi Vestmannaeyjabæjar með Sjúkratryggingum Íslands um það með hvaða hætti Sjúkratryggingar, fyrir hönd ríkisins, sæju fyrir sér yfirfærsluna og rekstur Hraunbúða í framtíðinni. Bæjarstjórn leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að tryggja óbreytta þjónustu við heimilisfólk Hraunbúða og þeirra sem sækja þangað þjónustu, og að tryggja starfsfólki Hraunbúða áframhaldandi störf sbr. lög þar um, við yfirfærslu stofnunarinnar til ríkisins. Næsti fundur Vestmannaeyjabæjar með forstjóra og fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands átti að vera á morgun, en hefur verið frestað að beiðni forstjóra Sjúkratrygginga Íslands.”