Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í dag, föstudaginn 30. október, að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppni KSÍ 2020, í samræmi við 5. grein í reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (Covid-19), sem gefin var út í júlí síðastliðnum. Ákvörðunin tekur strax gildi.

Íslandsmót
Í 5. grein reglugerðarinnar kemur fram að hafi að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja í efstu deild, 1. deild og 2. deild verið leiknir samkvæmt mótaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í öllum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir.

Bikarkeppni
Í samræmi við 5. grein reglugerðarinnar verður ekkert lið krýnt Mjólkurbikarmeistari 2020.

Þátttaka í Evrópukeppnum
Í 6. grein reglugerðarinnar er fjallað um þátttöku í Evrópukeppnum. Þar kemur fram að þátttaka liða í Evrópukeppni ársins 2021 skuli ráðast af röð þeirra í efstu deild Íslandsmótsins. Jafnframt kemur fram að náist ekki að ljúka keppni í bikarkeppni karla, en Íslandsmóti lýkur samkvæmt grein 5.1.1. leikur liðið í 4. sæti efstu deildar Íslandsmóts í Evrópukeppni.

Nánar á vef KSÍ:  https://www.ksi.is/um-ksi/frettir/frettasafn/frett/2020/10/30/Keppni-haett/