Bæjarstjórn Vestmannaeyja sendi frá sér sameiginlega bókun á fundi sínum í síðustu vikur þar lýsir bæjarstjórn yfir miklum vonbrigðum með þá óásættanlegu stöðu sem skapaðist í síðustu viku þegar björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar voru ekki til taks frá fimmtudegi til sunnudags vegna viðhalds og verkfalls flugvirkja. Vestmannaeyjar eru eyjasamfélag sem reiða sig, við erfiðar veðurfarslegar aðstæður, á þjónustu björgunarþyrlna og þegar aðstæður skapast að hefðbundnu sjúkraflugi verður ekki viðkomið er nauðsyn slíkrar þjónustu jafnvel lífsspursmál. Að sama skapi er stór hluti vinnuafls í Vestmannaeyjum sjómenn sem vinna við erfiðar aðstæður og er þjónusta björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar þeirri stétt afar mikilvæg. Í desember á síðasta ári var samþykkt tilraunaverkefni heilbrigðisráðherra um sérhæfða sjúkraþyrlu á Suðurlandi og er mikilvægt að það verkefni komist í farveg sem fyrst og fjármagn vegna þess verði tryggt. Sérhæfð bráðaþjónusta hefur verið skert verulega á landsbyggðinni, þ.á.m. í Vestmannaeyjum á síðustu áratugum sem eykur þörf fyrir örugga sjúkraflutninga í öllum veðrum.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að óska eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um stöðu sjúkraþyrluverkefnisins og koma áhyggjum bæjarstjórnar og óánægju vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust í síðustu viku á framfæri. Tryggja þarf að slíkar aðstæður komi aldrei aftur upp