Aðalfundur Taflfélags Vestmannaeyja fór fram 2. febrúar sl. í skákheimili TV að Heiðarvegi 9. Þá var nýlokið við að skipta út gólfefnum og komið vandað parket. Eftir þessar breytingar er skákheimilið enn glæsilegra. Starfsemi síðasta árs markaðist að nokkru af Covid 19. Skákþing Vm. 2020 með 10 keppendum lauk í byrjun mars sl. og slapp við Covid. Skákkennsla ungmenna raskaðist nokkuð í fyrravetur og einnig í síðasta haust, en er nú komin í eðlilegt horf. Afkoma Taflfélags Vm. 2020 var í góðu jafnvægi þrátt fyrir Covid. En félagið nýtur þess að eiga góða og trausta bakhjarla Arnar Sigurmundsson, formaður gaf ekki kost á sér til áfram , en hann tók að sér formennsku 2015 og tilkynnti fyrir ári að hann myndi hætta á næsta aðalfundi. Var Arnari þakkað mikið og gott starf fyrir TV á liðnum áratugum.. Kosin var ný stjórn TV, formaður Hallgrímur Steinsson, frkvstj. Löngu, en hann var varaform, í fyrri stjórn. Aðrir stjórnarmenn Sæmundur Einarsson, varaform., Guðgeir Jónsson, Sigurjón Þorkelsson, Stefán Gíslason og Þórarinn Ingi Ólafsson. Skoðunarmaður ársreiknings var endurkjörin Ægir Páll Friðbertsson.

Skákþing Vestmannaeyja 2021 hófst 3. febrúar sl. Keppendur eru 12 talsins og keppt í einum flokki. Aldursmunur á yngstu og elstu keppendum er hátt í 65 ár! Í fyrsta skipti er alþjóðlegur meistari meðal keppenda. Guðmundur Kjartansson , alþjóðlegur skákmeistari tilkynnti þátttöku , en hann er með 2488 skákstig, þarf að komast yfir 2500 skákstig til að verða útnefndur stórmeistari í skák. Til að uppfylla kröfur vegna þátttöku Guðmundar var umhugsunartími keppenda lengdur úr 60 mín. í 90 mín. á skákina. Þar sem nokkrir keppendur eru ýmist stigalágir eða stigalausir er alls óvíst að Guðmundi takist að komast alla leið þó hann vinni allar sínar skákir á mótinu. Nú er lokið fjórum umferðum af ellefu, en teflt er á fimmtudagskvöldum kl. 19.30 og á sunnudögum kl. 12.00 í skákheimili TV. Skákþinginu lýkur í byrjun mars nk.

Föstudaginn 12. febrúar sl. var skákkennsla hjá yngri kynslóðinni. Þar mættu einnig Helgu Áss Grétarsson stórmeistari og Guðmundur Kjartansson alþjóðlegur skákmeistari. Tefldu þeir félagar blindskákir á nokkrum borðum við krakkana. -Voru þeir með bundið fyrir augu eða sáu ekki á taflborðin. Var þetta hin besta skemmtun. Það kostar mikla einbeitingu að tefla nokkrar blindskákir í einu en þeir skiptu hópnum á milli sín. Skákkennslan hjá Taflfélafi Vm. er tvisvar í viku nánar á facebook síðu TV.