Stórmeistarinn Helgi Ólafsson er genginn í Taflfélag Vestmannaeyja á ný. Frá þessu er greint í frétt á vefnum skak.is. Hjá TV steig hann sín fyrstu skref á skáksviðinu á sjöunda áratugnum. Helga þarf vart að kynna fyrir íslenskum skákmönnum en afrekslisti hans er bæði langur og glæsilegur. Helgi var, ásamt Jóhanni Hjartarsyni, Jóni L. Árnasyni og Margeiri Péturssyni, einn af fjórmenningaklíkunni svokölluðu. Allir urðu þeir stórmeistarar á níunda áratug síðustu aldar. Þeir mynduðu einnig kjarnann í sigursælasta skáklandsliði Íslands fyrr og síðar. Helgi mun án efa styrkja lið Vestmannaeyinga í komandi átökum úrvalsdeildarinnar.

Á myndinni eru frá vinstri: Þorsteinn Þorsteinsson liðsstjóri TV, Karl Gauti Hjaltason formaður TV og Helgi Ólafsson.