Eyjarokkhljómsveitin Molda sendi nú í vikunni frá sér glænýtt og eldheitt lag. „Lagið heitir Ymur Jörð og er eftir mig, Albert og Molda. Textinn sem er eftir Sigurmundur G Einarsson fjallar um eldgosið í Heimaey 1973 og átti upphaflega að koma út á plötunu okkar sem er í vinnslu.  Fagradalsfell gýs eins og alþjóð veit, og við tókum samhljóma ákvörðun að gefa lagið út strax í ljósi gossins – eðlilega,” sagði Helgi Tórshamar, gítarleikari sveitarinnar í samtali við Eyjafréttir. Ásamt honum í hljómsveitinni eru þeir Albert snær sem syngur og leikur á gítar, Þórir Rúnar (Dúni) sem spilar á bassa og Birkir Ingason sem trommar.

Sveitin var stofnuð 2020 og hefur þegar sent frá sér 3 lög sem hlýða má á, á Spotify. Einnig hafa þeir gert myndband við tvö laganna og má finna þau á Facebook síðu Molda. Þriðja myndabandið er í smíðum sem og hljómplata.

Um upptökur sá Gísli Stefánsson og mastertering var í höndum Finns Hákonarsonar. Gestasöngvari í laginu er Andri Hugo.