Karlalið ÍBV mætti Þrótti í Laugardalnum nú fyrr í kvöld í 9. umferð Lengjudeildarinnar. Bæði lið unnu góða sigra í síðustu umferð, Eyjamenn sigruðu Selfyssinga 3-1 og Þróttarar sigruðu Víking frá Ólafsvík 7-0. Á 10. mínútu leiksins fengu Þróttarar vítaspyrnu en spyrnan var laus og Halldór Páll Geirsson markvörður ÍBV varði. Fyrri hálfleikur var að öðru leyti afar tíðindalítill þar sem hvorugu liðinu tókst að skapa sér hættuleg færi. Seinni hálfleikur var litlu fjörugri en til tíðinda dró á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar ÍBV komst yfir með marki frá Felixi Erni Friðrikssyni og sigur ÍBV raunin. Eyjamenn halda sér því enn í öðru sæti deildarinnar.