Andrés Þorsteinn Sigurðsson

Vegna ótímabærra og ósannra yfirlýsingar Írisar Róbertdóttur bæjarstjóra í viðtali við vefmiðilinn Mannlíf sé ég mig knúinn til að upplýsa um eftirfarandi:

Sú staðreynd að ég var sniðgenginn við ráðningu á hafnarstjóra er eingöngu eitt dæmi af mörgum um framgöngu Írisar gagnvart mér og því miður fleiri starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar.

Hvað ráðningarmálið varðar þá tala staðreyndir þar sínu máli.  Fyrir liggur að ég hef yfir 15 ára starfsreynslu sem yfirhafsögumaður ásamt því að hafa gegnt stöðu skrifstofustjóra og séð um daglegan rekstur Vestmannaeyjahafnar. Þar áður sjómaður, stýrimaður og skipstjóri til tugi ára.  Þetta mátti sín lítils í hæfismati þar sem grunnskólakennari með enga reynslu af starfsemi hafnarinnar né störfum við sjávarútveg var þar tekin fram yfir mig.  Ekki verður hjá því litið að viðkomandi hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir H-listaframboð Írisar auk þess sem hún var framkvæmdarstjóri ÍBV þegar Íris var formaður ÍBV og því eðli málsins samkvæmt góð vinátta þeirra á milli.

Ég tel mikilvægt að taka fram að það er hreinlega rangt í máli Írisar að hæfnismat það sem réð vali á hafnarstjóra hafi verið unnið af framkvæmda- og hafnarráði.  Það geta nefndarmenn staðfest.  Hæfniskvarði sem mat trúnaðarmann H-listans og grunnskólakennara fram yfir mig sem skipstjóra með víðtæka reynslu var saminn af ráðningarskrifstofu eftir forskrift Írisar og/eða næstu undirmanna hennar.  Þetta mál verður kært og munu dómstólar kveða þar sinn dóm.

Í uppsagnarbréfi sem ég sendi inn til framkvæmda og hafnarráðs upplýsi ég ráðið sem forsvarsfólk míns vinnustaðar um það einelti sem ég hef orðið fyrir af hálfu Írisar í lengri tíma en hægt er að lifa við.  Þar tek ég skýrt fram að ég hafi þegar tekið saman minnisblaði með dæmum og vitnum sem verði skilað inn þegar málið verður komið í hlutlausan og málefnalegan farveg.  Þetta geri ég af virðingu fyrir sjálfum mér sem fagmanni en jafnframt til að koma í veg fyrir að aðrir starfsmenn verði fyrir sama órétti.  Þá er það mér hvatning að leita réttar míns að vita að ég er því miður ekki eini starfsmaður Vestmannaeyjabæjar sem orðið hef fyrir afar óviðeigandi framkomu af hennar hálfu og hef ég þá trú að úttekt hlutlausra aðila eigi eftir að leiða í ljós mörg dæmi um tilburði til ómálefnanlegrar gagnrýni, sniðgöngu, óviðeigandi athugasemda og fleira.  Dæmin sýna að því miður hefur gott fólk hrakist frá störfum vegna framkomu Írisar og bætast ég og mín fjölskylda við þá sem hafa séð þann eina kost að segja upp og flytja frá Vestmannaeyjum.

Ég óska eftir skilningi á því að meining mín var ekki að reka þetta mál í fjölmiðlum heldur að gefa fagráðinu svigrúm til að nálgast málið af virðingu fyrir alvarleika þess.  Val Írisar var að ræða málið við fjölmiðla áður en hægt væri að finna málinu faglegan farveg.  Við því verð ég að bregðast.

Ég treyst því að vandaðir nefndarmenn framkvæmda- og hafnarráðs finni þessu máli nú faglegan farveg án aðkomu Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra enda hún og hennar nánasta samstarfsfólk vanhæft til aðkomu vegna stöðu hennar sem geranda.

Andrés Þorsteinn Sigurðsson
Yfirhafnsögumaður Vestmannaeyjahafnar