Rafmagn til Vestmannaeyja, forgangsorka, varaafl og rafmagnsþörf voru til umræðu á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Fram kom að bæjarstjóri fundaði með ráðherra orkumála þann 6. janúar sl. Á fundinum fór bæjarstjóri yfir stöðuna á rafmagnsþörf, forgangsorku, varaafli, flutningskerfi, gjaldtöku og þörf með tillit til orkuskipta. Þá hefur bæjarstjóri óskað eftir því við 1. þingmann kjördæmisins að þingmenn kjördæmisins fundi með bæjarráði vegna málsins.

Landsneti ber lögum samkvæmt að tryggja varaafl fyrir forgangsorku. Það varaafl er ekki til staðar í Vestmannaeyjum í dag. Bæjarstjóri lagði til við bæjarráð að ráðið myndi senda formlegt erindi á Landsnet vegna færanlegra varaaflsstöðva til að hægt sé að tryggja eins mikið varaafl og mögulegt er á loðnuvertíðinni.

Bæjarráð þakkaði upplýsingarnar og samþykkti tillögu bæjarstjóra um að senda formlegt erindi á Landsnet vegna færanlegra varaaflsstöðva til Vestmannaeyja.