Verstu samgöngur sem ég hef búið við á 30 árum

Vilmar Þór Bjarnason og Sigurður Bragason

Það er víðar spilaður handbolti en í Ungverjalandi því kvennalið ÍBV stendur í ströngu þessa dagana. Þær mættu Aftureldingu í Mosfellsbæ í gærkvöldi og unnu þar góðan sigur og eiga svo annan útileik gegn Fram komandi laugardag. Sigurður Bragason þjálfari liðsins er ánægður með stöðuna á liðinu en hann er allt annað en sáttur með ástandið í samgöngumálum við Vestmannaeyjar þessa dagana.

Ónýtt hrúgald
„Þetta er náttúrlega alveg glatað að bara þessir tveir leikir skuli kosta okkur rúmlega tvo daga í vinnu. Hér er 16 manna hópur þar sem 9 eru í fullri vinnu og aðrir í námi. Þessi hópur verður allur fjarverandi næstum hálfa vikuna.“ En liðið hefur þurft að ferðast til og frá Þorlákshöfn frá því lokað hefur verið í Landeyjahöfn síðustu daga sökum ófullnægjandi dýpis. „Ég er búinn að vera í þessu meistaraflokksbrölti í tæp 30 ár og þetta er það lélegasta sem mér hefur verið boðið upp á. Þegar ég var að byrja í þessu var flogið með fokker fram og til baka sem beið með áætlun þar til eftir leiki. Eftir að það hætti var ýmist flogið með áætlun eða á Bakka og komið heim að kvöldi til. Nú er fátt annað í boði en Herjólfur eða rándýrt leiguflug. Maður væri kannski líka ekki í þessu tuði ef það væri eitthvað verið að gera. Hvers vegna yfirvöld bregðast bara við þegar allt er komið í skrúfuna? Af hverju í ósköpunum er t.d. ekki komið alvöru grafskip í þetta verkefni núna 12 árum eftir opnun hafnarinnar? Það sjá það allir sem vilja að þetta hrúgald sem okkur er boðið upp á er ónýtt.“

Lélegur undirbúningur
Sigurður segir fleiru fórnað en vinnutapi og kostnaði við gistingu og uppihald. „Við erum að reyna að halda úti topp liði hérna og setja pening í þetta. Svona brölt bitnar líka á æfingum, undirbúningi og hvíld leikmanna það segir sig sjálft. Nú erum við að fara mæta toppliði á laugardag við komum heim seinnipartinn í dag og förum aftur í skipið á morgun það sjá það allir að þetta er ekki góður undirbúningur.“ ÍBV liðið á sjö leiki á dagskrá í febrúar og því ljóst að nóg er fram undan hjá Sigga og stelpunum. „Æ ég er bara ógeðslega fúll með þetta og það er kannski eina leiðina að láta aðeins í sér heyra, ég hef allavegana ekki séð þingmenn eða aðra stökkva til með einhverja lokunarstyrki fyrir okkur við þessar aðstæður þrátt fyrir mikinn kostnað og tekjutap,“ sagði Sigurður að lokum.

Sjómanna kveðjur
Sjómanna kveðjur

Mest lesið