Það þekkja það allir sem hér hafa búið hversu nærandi það er að vera í daglegu návígi við okkar stórbrotnu náttúru og í kringum það góða fólk sem Eyjarnar byggja. Eins og svo margir var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fæðast í Vestmannaeyjum og hér hef ég kosið að vera. Þetta er það sveitar- og samfélag sem ég hef vera þátttakandi í, barist fyrir og vil gera áfram.

Sveitarfélag er eins og stórt heimili þar sem huga þarf að mörgum mikilvægum þáttum svo að allt gangi upp og öllum líði vel. Þar er reksturinn allra mikilvægastur því lélegur rekstur kemur fljótt niður á samfélaginu í heild. Þetta þekki ég vel frá því að ég var starfsmaður Vestmannaeyjabæjar í 12 ár sem framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Á þeim tíma tókst okkur að snúa blaðinu við og stýra sveitarfélaginu okkar frá því að vera eitt það verst rekna á landinu í það að vera meðal þeirra best reknu. Ég þekki mannauðinn, innviðina og reksturinn. Ég hef svo fylgst með stöðunni síðastliðin ár og ég veit að saman getum við gert betur.

Ég tel stefnu og áherslur Sjálfstæðisflokksins þær réttu til þess að koma sveitarfélaginu okkar aftur á þá braut sem unnið hafði verið að. Þá braut sem skilaði okkur miklum fjárfestingum í innviðum, almennri uppbyggingu og fjölgun bæjarbúa. Þess vegna vil ég berjast fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn nái aftur meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyja en nú fá tækifæri til þess að hafa bein áhrif á áætlanagerð, ákvörðunartöku og mótun framtíðarsýnar sem bæjarfulltrúi. Því hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína í 5. sæti flokksins og þar með taka slaginn í baráttusætinu um meirihlutann í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Ég óska eftir þínum stuðningi í prófkjörinu svo að ég geti á ný lagt mitt að mörkum við það að gera gott samfélag betra. Við þurfum sameiginlega að móta okkur öfluga og jákvæða framtíðarsýn.

Áfram Eyjar!

Rut Haraldsdóttir