Peyjarnir í Merkúr voru að gefa út nýja plötu sem ber nafnið “Melancholia”. “Þessi plata hefur verið í vinnslu hjá okkur í kringum 2 ár og því er það mikill léttir og mikil spenna að setja hana loksins í loftið. Vanalega hefur það verið þannig að Arnar sé aðalsöngvarinn og að spila öll sóló á gítarinn en á þessari plötu ákváðum við að Trausti og Arnar myndu deila söngnum (eða garginu) jafnt og sömuleiðis sólóum. Okkur finnst við vera fjölhæfari fyrir vikið og hefur sándið töluvert þyngst,” segir í tilkynningu frá strákunum.

Þema plötununnar er skammdegisþunglyndið sem við Íslendingarnir þekkjum aðeins of vel. Platan var nefninlega samin um miðjan vetur og því kemur vítamín D skorturinn alveg fram í tónlistinni.

“Merkilegt líka að við fengum hann Baldur Ragnarsson úr hljómsveitinni Skálmöld til þess að syngja inn á eitt lag hjá okkur. Við erum allir miklir Skálmaldarmenn og var Merkúr eiginlega stofnuð vegna áhrifa Skálmaldar. Það var því ótrúlegt að fá reynslubolta eins og hann Baldur inn í þetta með okkur og erum við hæst ánægðir með óhljóðin sem hann gaf okkur.”

Það verða svo haldnir Útgáfutónleikar hér í eyjum eftir nokkrar vikur til þess að halda upp á útgáfuna.

Merkúr eru:
Arnar Júlíusson – Gítar, Söngur
Trausti Mar Sigurðarson – Gítar, söngur
Birgir Þór Bjarnason – Bassi
Mikael Magnússon – Trommur