Umræða um samgöngumál fór fram á fundi bæjarráðs í gær. Þann 10. nóvember sl., átti bæjarráð Vestmannaeyja fund með fulltrúum Vegagerðarinnar, þar sem m.a. var ræddur samningur Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs. Umræddur samningur gildir til 1. október 2023. Á fundinum lýsti Vestmannaeyjabær áhuga á að halda áfram rekstri ferjunnar á vegum Herjólfs ohf. og endurnýja eða framlengja þannig samninginn við Vegagerðina. Jafnframt ræddu aðilar um stöðu Landeyjahafnar og dýpkun í höfninni.

Ánægjulegt er að afkastageta dýpkunaraðila hefur aukist
Bæjarráð telur í niðurstöðu sinni um málið að rekstur ferjusiglinga milli lands og Eyja þurfi að taka mið af hagsmunum samfélagsins. “Í því ljósi er mikilvægt að sá rekstur verði áfram sinnt af hálfu Herjólfs ohf. Vissulega hafa ýmsar áskoranir verið í rekstri félagsins undanfarin ár, sem aðallega má rekja til utanaðkomandi aðstæðna og ófyrirséðra atvika. Þrátt fyrir það hefur reynsla síðustu ára sýnt, svo ekki verði um villst, að hagsmunum bæjarbúa er best borgið með forræði yfir rekstri ferjunnar. Bæjarráð mun því fara þess á leit við samgönguyfirvöld að samningurinn verði endurnýjaður haustið 2023. Ánægjulegt er að afkastageta dýpkunaraðila hefur aukist sem væntanlega mun skila sér í minni frátöfum í Landeyjahöfn yfir vetrarmánuðina.”