Dagdvöl aldraðra var til umræðu á fundi bæjarráðs í vikunni. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa óskað eftir umboði frá rekstraraðilum dagdvalarþjónustu hjá sveitarfélögum, til viðræðna við Sjúkratryggingar Íslands um þjónustusamninga fyrir dagdvalir.

Baksaga málsins er sú að haldinn var samráðsfundur með rekstraraðilum dagdvala og í framhaldi hefur undirhópur fulltrúa dagdvala farið yfir málið. Þá hefur málið einnig verið rætt á vettvangi stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Niðurstaða þessarar vinnu var að óska formlega eftir umboði til samningagerðar og nálgast svo ríkið formlega með beiðni um að hefja samningaviðræður. Hér er átt við hvort tveggja almennar og sérhæfðar dagdvalir.

Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir í niðurstöðu sinni að framselja Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga umboð til samningaviðræðna við ríkið um almenna og sértæka dagdvöl í Vestmmannaeyjum. Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirrita umboðið f.h. Vestmannaeyjabæjar.