Brotin voru lög við ráðningu hafnarstjóra. Dómsorð taldi málsmeðferð hafnarstjórnar ámælisverða og ekki lögum samkvæmt. Hafnarstjórn sinnti ekki rannsóknarskyldu sinni né veitti stefnanda andmælarétt. Ekki var sýnt fram á að leitast hafi verið við ráða hæfasta einstaklinginn og málsmeðferð Vestmannaeyjahafnar dró mjög úr raunhæfum möguleikum stefnanda á að verða ráðinn í starfið

Ítrekaðar viðvaranir Sjálfstæðismanna hunsaðar af meirihlutanum
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu á sínum tíma alvarlegar athugasemdir við ráðningarferlið alveg frá því að það kom fyrst fyrir augu framkvæmda- og hafnarráðs. Þar reyndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að benda meirihlutanum á að lögum samkvæmt ætti hafnarstjórn að bera ábyrgð á ráðningunni, ásamt því að hæfniskröfum var breytt frá því sem ráðið og bæjarstjórn höfðu áður samþykkt. Telja má amk. 6 bókanir fulltrúa Sjálfstæðisflokks bæði í fagráðinu og bæjarstjórn þar sem ferlið var gagnrýnt og lagalegt réttmæti dregið í efa. Meirihlutinn hunsaði ekki bara slíkar bókanir heldur gagnrýndi fulltrúa minnihlutans harkalega og sagði þá ítrekað vera að ráðast að starfsfólki bæjarins þegar gagnrýnin beindist eingöngu að pólitískt kjörnum fulltrúum.

Meirihlutinn vildi ekki ræða málið opinberlega
Bæjarráð hefur ekki rætt þetta mál nema sem trúnaðarmál þar sem engar upplýsingar birtast opinberlega. Umræða um þennan lið var ekki á útsendri dagskrá 281. fundar  framkvæmdar- og hafnarráð þrátt fyrir nýlega fallinn dóm sem er mikill áfellisdómur á störf framkvæmda- og hafnarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu fengu það þó inn með herkjum og bókuðu um það. Í kjölfarið óskuðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir umræðu um málið á fundi bæjarstjórnar í gær þar sem það var loksins rætt fyrir opnum tjöldum. Þar var bæjarstjóri m.a. spurður af hverju meirihlutinn hafi ekki sýnt frumkvæði í að ræða þetta mál opinberlega. Hún sýndi málinu öllu þó engan áhuga og kom aldrei upp til svara. Tilraunir meirihlutans til þöggunar málsins eru augljósar.

Meirihlutinn firrar sig ábyrgð og sýnir enga auðmýkt í málinu
Á bæjarstjórnarfundi í gær var lítið um einlæga iðrun í málinu hjá meirihluta. Í bókun þeirra er reynt að afvegaleiða umræðuna og ekki gengist við sök í málinu. Þar er talað um formgalla og vitnað í upphæðir í dómnum. Lög voru brotin, brotið var á starfsmanni, umsækjanda um starf hjá Vestmannaeyjahöfn, um það er enginn vafi. Mistök gerast en það er ekki hægt að læra af þeim fyrr en maður viðurkennir þau og sýnir vilja til að gera betur.

Stjórnmálaafl stofnað m.a. til að bæta ráðningarmál fær á sig dóm um ólögmæta ráðningu
Þessi forherta afstaða meirihlutans í málinu er mjög miður, sérstaklega í ljósi þess að eitt helsta keppikefli fulltrúa meirihlutans við stofnun stjórmálaaflsins Fyrir Heimaey var að bæta ráðningamál hjá Vestmannaeyjabæ en endar á að fá á sig alvarlegan dómsúrskurð vegna ráðningarmála.

Samfélagið greiðir sakar- og málskostnað vegna brotalama stjórnsýslu
Þessi meirihluti skuldar ekki bara umræddum stefnanda afsökunarbeiðni, hann skuldar íbúum, sem á endanum greiða málskostnað og bætur, svör. Hann skuldar ekki síður fulltrúum minnihlutans afsökunarbeiðni fyrir þá meðferð sem þeir fengu þegar þeir reyndu hvað eftir annað að benda á brotalamir í ferlinu áður en til dómsmáls kom og sinntu þannig sínu lögbundna aðhaldshlutverki. Sá hroki, óbilgirni og yfirlætissemi sem birtist í bókunum meirihlutans og framkoma hans á þeim fundum þar sem málið var rætt er óásættanleg.

Bæjarfulltrúar bókuðu í gær athugasemdir vegna dómsins og óskuðu jafnframt eftir skriflegum svörum vegna spurninga þeim tengdum.

  1. Efni auglýsingarinnar var ekki ákveðið af framkvæmdar- og hafnarráði heldur virðist það hafa verið ákveðið af sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs, staðgengli bæjarstjóra, og  hæfniskröfur  í auglýsingunni ekki þær sömu og ráðið hafði áður samþykkt. Auglýsingin var aldrei borin undir ráðið sem hefði verið rétt að gera þar sem ráðið er sá aðili sem ræður hafnarstjóra.
  2. Enginn í ráðinu leitaði til Hagvangs, þvert á móti var það sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, staðgengill bæjarstjóra. Ekki hefur komið fram hver fól honum það eða hvort slíkt var að hans frumkvæði.
  3. Ráðið hafði enga vitneskju um vægi matsþáttanna á borð við háskólamenntun 25% og reynsla 5% sem er í ósamræmi við hlutverk og skyldur ráðsins. Ekki hefur fengist upplýst hver ákvað mismunandi vægi matsþátta sem dregur úr trúverðugleika og sanngirni ráðningarinnar. Málsmeðferðin dró skv. dómnum mjög úr raunhæfum möguleikum stefnanda á að verða ráðinn í starfið.
  4. Framkvæmda- og hafnarstjórn brást hlutverki sínu þegar það lét Vestmannaeyjabæ yfirtaka ferlið, án athugasemda. Ekki liggur fyrir hver valdi þennan málsferil. Þó framganga Vestmannaeyjabæjar beri með sér misbeitingu valds þá breytir það því samt ekki að hafnarstjórn, bar alltaf sjálft ábyrgð, sbr. rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga.
  5. Ekki hefur verið sýnt fram á að hæfasti einstaklingurinn hafi verið valinn. Vandfundin eru rök fyrir því hvernig háskólamenntun þess umsækjenda sem fékk starfið nýtist sérstaklega í því og hefur Vestmannaeyjahöfn ekki fært fram rök fyrir því, eins og fram kemur í dómnum. Fyrir liggur að sá aðili sem fékk starfið hefur háskólamenntun á sviði grunnskólakennarafræða og hefur Vestmannaeyjabær/höfn hvorki gert líklegt, né sýnt fram á, að sú menntun nýtist sérstaklega í starfi hafnarstjóra. 
  6. Réttur til andmæla var brotinn. Vestmannaeyjabær/höfn reyndi að færa rök fyrir því að engin þörf hafi verið á því að bera niðurstöðu undir umsækjanda áður en ráðið var í starfið. Dómari fellst ekki á þetta. Að mati dómsins átti að bera þetta undir hann áður en ráðið var í starfið – brot á 13. gr. stjórnsýslulaga. Undir það taka undirrituð.
  7. Hvergi kemur fram að leitað hafi verið sátta í málinu. Undirrituð telja það eina af frumskyldum stjórnvalds eins og Vestmannaeyjabæ/höfn að leita sátta í málum sem þessum.

Að framansögðu gera fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kröfu um að lögð verði fram opinberlega skrifleg svör við eftirfarandi spurningum:

  1. Hver valdi að láta Vestmannaeyjabæ stjórna ferlinu við ráðningu á hafnarstjóra í stað hafnarstjórnar, líkt og lög kveða á um og hvers vegna?
  2. Hver fól sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs, staðgengli bæjarstjóra, að auglýsa starf hafnarstjóra?
  3. Hafði sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs einhliða ákvörðunarvald um efni auglýsingarinnar og þar með hæfniskröfur? Ef ekki, hver vann það með honum?
  4. Hver ber ábyrgð á vægi matsþátta sem lágu til grundvallar ráðningunni og undir hverja voru þeir bornir?
  5. Óskað er eftir því að lagður verði fram listi yfir alla þá starfsmenn Vestmannaeyjabæjar og Vestmannaeyjahafnar, sem og kjörna fulltrúa, sem sátu fundi með Hagvangi í tengslum við ráðninguna annars vegar og með lögmönnum vegna undirbúnings dómsmálsins hinsvegar
  6. Hvers vegna var andmælaréttur ekki virtur eins og lög kveða á um? 
  7. Hver var kostnaðurinn við aðkomu Hagvangs og hvort var sá kostnaður greiddur af Vestmannaeyjahöfn eða Vestmannaeyjabæ sem var hinn raunverulegi verkkaupi?
  8. Hver var kostnaður vegna dómsmálsins og hvort var sá kostnaður greiddur af Vestmannaeyjahöfn eða Vestmannaeyjabæ sem var hinn raunverulegi verkkaupi?
  9. Er fyrirhugað að biðja þann umsækjenda sem brotið var á afsökunar?
  10. Með hvaða hætti ætlar meirihluti bæjarstjórnar að taka ábyrgð á og læra af dómnum?

Eyþór Harðarson
Gísli Stefánsson
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Margrét Rós Ingólfsdóttir