Meðal þess sem var á dagskrá á fundi bæjarstjórnar í gær vat Umræða um samgöngumál.
Árið 2022 flutti Herjólfur alls 412.857 farþega, sem er 22% aukning milli ára og rúmlega 57.000 fleiri farþegar en fluttir voru með Herjólfi árið 2019, sem þá var metár farþegaflutninga með Herjólfi á einu ári.

Nýting Landeyjarhafnar hefði getað verið betri árið 2022, eftir góð ár þar á undan. Stafaði það af ónógu dýpi og verðurfari. Góðar og traustar samgöngur er grunnstoð þessa samfélags, bæði fyrir íbúa og fyrirtæki. Ljóst er að kröfur samfélagsins munu bara aukast hvað það varðar.

Í framhaldi af mjög góðu rekstrarári árið 2021, stefnir í neikvæða rekstrarafkoma félagsins árið 2022. Aukin þjónusta, lokun Landeyjarhafnar vegna dýpis, slipptaka Herjólfs IV og miklar hækkanir á aðföngum, svo sem olíu, gera það að verkum að rekstrarniðurstaðan árið 2022 verður neikvæð.

Herjólfur þarf að fara í slipp á tveggja ára fresti og ljóst að rekstrarafkoma félagsins mun litast af þeim kostnaði sem því fylgir annað hvort ár. Rekstraráætlun fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir sambærilegum farþegafjölda og árið 2022.