Staða inntökumála í leikskóla var til umræðu á fundi fræðsluráðs í gær. Gert er ráð fyrir að börn fædd 2021, sem óskuðu eingöngu eftir leikskólavist á Sóla, verði komin í leikskóla um mánaðamótin febrúar-mars þegar ný deild á Sóla verður tilbúin. Nokkur börn í árgangi 2022 hafa hafið skólagöngu í Kirkjugerði. Sóli hefur svigrúm til að taka inn elstu stúlkurnar í árgangi 2022, til viðbótar við þau börn sem þegar hafa fengið vistunarboð, þegar nýja deildin er tilbúin og þá eru deildir yngstu barna í leikskólunum fullsetnar.

Ráðið leggur í niðurstöðu sinni um málið áherslu á að unnið verði eftir verklagi um aðlögun og inntöku í Víkina en þar kemur skýrt fram að inntökutímabil í Víkina er maí-ágúst. Gert er því ráð fyrir að hluti barna í árgangi 2018 hefji skólagöngu í Víkinni í maí og júní og að þeim bjóðist gjaldfrjáls vistun fyrir 7 tíma ásamt gjaldfrjálsu fæði í samræmi við gjaldskrá Víkurinnar. Við það skapast skilyrði til að inntaka barna í árgangi 2022 geti orðið í byrjun maí. Fræðsluráð óskar eftir því að fá minnisblað með áætlaðri þörf á leikskólaplássum fyrir næstu 3 árin sem tekið verður fyrir á næsta fundi ráðsins.