Snjómokstur í Vestmannaeyjum var til umræðu á fundi bæjarráðs í vikunni. Kostnaður vegna snjómoksturs í desember og janúar sl., er töluvert umfram fjárhagsáætlanir áranna 2022 og 2023. Við gerð áætlunar um snjómokstur í fjárhagsáætlunum er alla jafna miðað við meðalkostnað snjómoksturs undanfarinna ára. Í desember nam samanlagður kostnaður aðkeypts snjómoksturs um 36 m.kr og í janúar nam samanlagður kostnaður um 19,6 m.kr. Alls nam kostnaður við snjómokstur þessara tveggja mánaða því um 55,7 m.kr. Þessi kostnaður verður skilgreindur sem frávik frá fjárhagsáætlun eins og sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir.