Umhverfisátak var til umræðu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á mánudaginn. Í sumar eru eins og flestum er kunnugt 50 ár frá lokum Heimaeyjargossins. Á hverju ári er haldin goslokahátíð að því tilefni og verður þar engin undantekning í ár nema að þessu sinni verður hátíðin viðburðameiri. Lagt er til að efnt verði til umhverfis- og hreinsunarátaks meðal íbúa og fyrirtækja að því markmiði að snyrta og fegra bæinn og sitt nærumhverfi fyrir þessi stóru tímamót.

Ráðið hvetur í niðurstöðu sinni íbúa og fyrirtæki til að snyrta lóðir sínar, fasteignir og nærliggjandi umhverfi. Einnig felur ráðið umhverfisfulltrúa að hafa samband við fyrirtæki sem selja garðáhöld, byggingar- og málningarvörur varðandi að veita afslætti og skapa þannig hvata fyrir íbúa til þátttöku.