Eyja Bryngeirsdóttir, leikskólastjóri Kirkjugerðis, var með frábært erindi fyrir allt starfsfólk leikskólanna miðvikudaginn 12. apríl sl. og var það liður í endurmenntunaráætlun skólaþjónustu. Erindið var byggt á meistararitgerð hennar Deildarstjórar í leikskólum: ákvarðanataka, vald og samskipti við aðra stjórnendur.

Við gerð ritgerðarinnar skoðaði Eyja störf deildarstjóra og þá sérstaklega hvernig þeir leysa erfið starfsmannamál, hvernig þeir skynja vald sitt og hvernig þeir horfa á samskipti sín við aðra stjórnendur. Rannsóknaraðferð var í formi hálfopinna viðtala við sex deildarstjóra sem flestir höfðu talverða reynslu. Helstu niðurstöður sýndu að deildarstjórar skynjuðu sig sem stjórnendur á sinni deild og að þeir væru hluti af stjórnendateymi skólans. Flestir töldu sig færa um að taka á erfiðum starfsmannamálum en að stuðningur skólastjórnenda í þeim málum mætti vera meiri. Þá sýndu niðurstöður að samskipti milli stjórnenda í leikskólunum væru góð og að það ríkti traust og virðing milli aðila.

Þótt ritgerðin fjalli um deildarstjóra í leikskólum á efni hennar erindi til allra sem hafa áhuga á leiðtogafærni í starfi. Áhugasamir geta lesið hana á skemman.is