FH og ÍBV mætast í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik. Það varð ljóst eftir að liðin sendu andstæðinga sína, Selfoss og Stjörnuna, í sumarfrí í gærkvöldi. ÍBV vann Stjörnuna öðru sinni í hörkuleik í TM-höllinni, 27:23. FH fór létt með Selfoss í Sethöllinni á Selfossi, 33:24. Fyrsti leikur FH og ÍBV verður í Kaplakrika fimmtudaginn 4. maí. Vegna landsleikja í næstu viku verður gert hlé á úrslitakeppninni fram yfir mánaðamót.

Leikmenn Stjörnunnar mættu Eyjamönnum af fullum þunga í fyrri hálfleik. Leikmenn ÍBV voru eins og slegnir út af laginu og náðu sér engan veginn á strik. Ekki hjálpaði þeim heldur að Adam Thorstensen átti stórleik í marki Stjörnunnar. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 15:10, Stjörnunni í vil.

Eyjamenn vorum sjálfum sér líkari í síðari hálfleik. Þeir unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og komst yfir fyrst, 21:20. Eftir það var ekki aftur snúið að þeirra hálfu. Rúnar Kárason fór á kostum og fleiri einnig.

Stjörnunni vantaði meiri breidd til þess að standast ÍBV snúning. Margir leikmenn liðsins eru fjarverandi. En hrós á þá sem eftir stóðu að gera allt sem hægt var til að velgja leikmönnum ÍBV hressilega undir uggum.

Stjarnan – ÍBV 23:27 (15:10).

Mörk Stjörnunnar: Björgvin Þór Hólmgeirsson 7/1, Hergeir Grímsson 6, Hjálmtýr Alfreðsson 3, Hrannar Bragi Eyjólfsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2, Gunnar Steinn Jónsson 1, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 16/2, 40%.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 11/1, Kári Kristján Kristjánsson 5, Janus Dam Djurhuus 4, Gabríel Martinez 3, Arnór Viðarsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2.
Varin skot: Petar Jokanovic 8/2, 53,3% – Pavel Miskevich 6, 30%.