Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í vikunni sem leið. Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúi, fór yfir stöðu viðræðna f.h. starfshóps Vestmannaeyjabæjar, um lagningu nýrrar vatnslagnar til Vestmannaeyja, sem í sitja Íris Róbertsdóttir, Eyþór Harðarson, Angantýr Einarsson, Brynjar Ólafsson og Sigurjón Örn Lárusson, við innviðaráðuneytið og HS-veitur.

Um er að ræða tvenns konar viðræður. Annars vegar við fulltrúa innviðaráðuneytisins enda lagning á annarri leiðslu almannavarnarmál og hins vegar við HS veitur um lagningu vatnslagnar til Vestmannaeyja. Eins og staðan er nú mun framkvæmdakostnaður við lagningu leiðslunnar skila sér í miklum verðhækkunum á gjaldskrá kalda vatnsins í Eyjum. Í ljósi þess að hér skapast almannavarnarástand ef vatnsöflun bregst um einu leiðsluna til Vestmannaeyja, telur Vestmannaeyjabær eðlilegt að ríkið komi til móts við Vestmannaeyinga við lagningu leiðslunnar með fjárhagslegum stuðningi.