Hér sitjum við á einhverju kaffihúsi í pinkulitlum bæ í Norður Slóvakíu. Það hefði örugglega engum Íslendingi dottið í hug að koma hingað ef það hefði ekki verið fyrir þennan skóla“ segir Lísa Margrét Rúnarsdóttir sem leggur stund á læknisfræði við Jessenius læknadeildina í slóvakíska bænum Martin. Hún er dóttir Þórunnar Ragnars og Angantýs bæjarritara, og barnabarn Önnu Jóhanns og Ragga Bald, fyrrverandi slökkviliðsstjóra. Systir Lísu er Arína Bára Angantýsdóttir. Blaðamaður tók púlsinn af Lísu í vorprófunum.

Hraunbúðir í miklu uppáhaldi

Lísa, sem útskrifaðist úr menntaskóla í Brussel, hélt næst í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þar var hún í tvö ár og á með þeim tíma stóð var hún formaður Eirar, nemendafélags heilbrigðisvísindanema við háskólann, ásamt því að vera í stjórn Landssamtaka íslenskra stúdenta. Undir lokinn hallaðist hugurinn meira í átt að læknisfræðinni og þá sérstaklega erlendis. „Ég fór því næst að vinna út á sjó, en ég var háseti á frystitogaranum Blæng sem er gerður út frá Neskaupstað af Síldarvinnslunni. Ég fór nokkra túra á honum og skellti mér svo í heimsreisu” segir Lísa, en eftir það tók við lærdómur fyrir inntökuprófin.

Hún hefur verið að vinna í stöðugildi hjúkrunarfræðings á Hraunbúðum síðustu árin. Í sumar verður hægt að rekast á Lísu upp á spítala þar sem hún verður aðstoðarlæknir. „Ég er ekki ákveðin með sérnám, en ég hef verið að skoða heimilislækningar og þá að vera í Eyjum” segir Lísa. „Ég tek örugglega líka einhverjar vaktir á Elló í sumar. Mér þykir svo vænt um fólkið og samstarfsfólkið mitt þar. Ég elska þau alveg út af lífinu, og ég á eftir að sakna þess að vera ekki í fullu starfi þar” bætir hún við.

Taka leigubíl í skóla og búð

„Hér eins og annars staðar er stemning að vera í háskóla. Félagsskapurinn er frábær og litla íslendingasamfélagið okkar sömuleiðis. Martin hefur undanfarin ár þróast í lítinn krúttlegan háskólabæ. Ég sé alveg mikinn mun á bænum frá því að ég kom hingað fyrst. Það eru reyndar glataðir veitingastaðir hérna. Það vantar alveg rosalega góðan mat hingað, þannig það er eitthvað sem ég myndi vilja breyta við Martin. Sömuleiðis þá áttar maður sig ekki alveg á hversu langt ferðalagið hingað er áður en maður kemur fyrst” segir Lísa en ferðalagið samanstendur af ca. 4 tíma flugi til annað hvort Póllands, Austurríkis eða Ungverjalands, og svo a.m.k. 4 tíma keyrslu. Ekki er möguleiki á því að taka beint flug til Slóvakíu. Þá lengist ferðin fyrir þá sem koma ofan að landi. 

„Svo er líka allt frekar ódýrt hérna og því getur maður leyft sér aðeins meira. Ég reyni að komast hjá því að fara mikið út að borða, en það að geta keypt sér mat og leigt íbúð á viðráðanlegu verði er stór kostur. Maður reynir líka að nýta tækifærið og ferðast í kring. Ég hef aðallega verið að fara til Búdapest, en kærastinn minn, Hallgrímur Júlíusson, bjó þar um tíma þegar hann var að safna sér inn tímum í flugmanninum” en Lísa er líka í handbolta og hefur ferðast til ýmissa borga og smábæja í Slóvakíu með liðinu sínu. Leigubíllinn er algengur og ódýr farkostur sem nemar eru duglegir að nýta sér. Það þykir ekkert skrýtið að taka leigubíl út í búð eða í tíma þegar maður er að verða seinn.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.