Ekki man ég árið en það var í janúar og undirritaður á leið á þorrablót á Seyðisfirði með mömmu. Hafði farið nokkrum sinnum og alltaf jafn gaman að líta æskustöðvarnar og hitta gamla vini og skólafélaga. Eins og stundum áður voru samgöngumál Eyjanna í umræðunni. Árni Johnsen boðaði til blaðamannafundar á Grand hóteli í Reykjavík brottfarardaginn, ætlaði að kynna skýrslu um möguleika á gerð jarðganga milli Eyja og lands. Ákveðið á ritstjórn Frétta að slá tvær flugur í einu höggi, mæta á fundinn á leiðinni á Seyðisfjörð.

Árni kynnti skýrsluna sem komst, að mig minnir fyrir á einni A-4 síðu. Kom frá virtu norsku fyrirtæki sem gaf henni gildi. Þar með skildu leiðir okkar Árna í þetta skiptið en það var ekki þar með sagt að ég væri laus við kallinn.

Ég nýtti tækifærið til að heilsa upp á dótturina, Berglindi sem var með saumastofu í Kjörgarði við Laugaveg. Eftir spjall og snarl var stokkið upp í næsta leigubíl og stefnan tekin út á flugvöll. Umferð þung og ferðin sóttist seint en bílstjóranum leiddist ekki að ræða málin. Þegar hann vissi að ég var frá Eyjum hófst lofsöngur um þann ágæta mann, Árna Johnsen sem að hans mati bar af öðrum þingmönnum. Ég tók undir flest það sem hann sagði en litlu mátti muna að ég missti af fluginu í Egilsstaði. Fékk miðann afhentan og hljóp út í vél.

Sessunautur minn í flugvélinni var kona frá Eskifirði og eins og Austfirðinga er vandi byrjuðum við að spjalla. Og sagan úr leigubílnum endurtók sig. Konan lofsöng Árna Johnsen og allt snerist um hann þennan klukkutíma sem flugið tók. Skemmtilegt og konan föst á að Austfirðinga vantaði mann eins og Árna á þing. Var því ekki mótmælt.

Þá var komið að rútuferðinni frá Egilsstöðum niður á Seyðisfjörð þar sem ég sat hjá gömlum sveitunga. Farið var um víðan völl en enn og aftur var það Eyjamaðurinn Árni sem hæst bar. Rútan skilaði okkur öllum á sinn stað og ég geng inn hjá mömmu og pabba án þess að banka. Varla kominn inn úr dyrunum þegar gellur í pabba:

„Staðan hérna á Seyðisfirði væri allt önnur og betri ef við hefðu menn eins og Árna Johnsen og Elliða bæjarstjóra í Vestmannaeyjum,“ segir sá gamli. Þarna varð ég kjaftstopp, pólitískar hetjur pabba, sem aldrei steig lengra til hægri en að kjósa Framsókn voru eins innmúraðir í Sjálfstæðisflokkinn og hægt er. Þarna var Árni Johnsen á toppnum.

Þessi saga kemur stundum upp í hugann þegar Árna ber á góma. Maður sem víða kom við og lét fátt stoppa sig. Frábær blaðamaður, líka rithöfundur, tónlistarmaður og alþingismaður. Fylginn sér í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, bóngóður og bar alltaf hag Eyjanna fyrir brjósti. Árna verður lengi minnst fyrir Brekkusönginn og það má þakka honum að vel er tekið undir þegar Þjóðsöngurinn er sunginn á landsleikjum. Árni á Brekkusviði er ein góðra minninga sem lifir um Árna Johnsen sem jarðsettur verður frá Landakirkju í dag.

Fjölskyldu Árna votta ég mína dýpstu samúð.
Ómar Garðarsson.