Meðal erinda á fundi bæjarstjórnar í gær voru heilbrigðismálin, en eins og fram hefur komið opinberlega hafa bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum vaxandi áhyggjur af umgjörð og þjónustustigi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) í Vestmannaeyjum.

Stofnunin rekur sjúkradeild, heilsugæslu og hjúkrunarheimili í Vestmannaeyjum og fram kemur í fundargerð að reynslan hefur sýnt fram á mikla annmarka á því að þessari starfsemi sé stýrt frá Selfossi.

Þegar ákveðið var á sínum tíma að sameina sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fylgdu loforð um öflugri einingu og betri þjónustu í Vestmannaeyjum. Þróunin hefur verið öfug.

Bæjarstjórn skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða núverandi fyrirkomulag á stjórnun og rekstri HSU í Vestmannaeyjum, með það að markmiði að efla stjórnun stofnunarinnar, auka sjálfstæði hennar og stuðla að bættri þjónustu. Með því að skipta upp starfsemi HSU og setja á laggirnar sjálfstæða stofnun í Vestmannaeyjum, telur bæjarstjórn að framangreindum markmiðum verði best náð. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að óska nú þegar eftir viðræðum við heilbrigðisráðherra um þetta brýna hagsmunamál þar sem núverandi ástandi verði ekki unað lengur.

Tillagan var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.