Undir listamannsnafninu Júníus Meyvant hefur Eyjamaðurinn Unnar Gísli Sigurmundsson sigrað bæði tónlistar- og myndlistarheiminn. Unnari er margt til lista lagt og verður hægt að heilsa upp á hann á sýningu hans í Craciouskró á Skipasandi í kvöld. Listakonan Sunna Einarsdóttir deilir sýningarrými með honum í krónni.

Aðspurður hvort það sé alltaf skemmtilegt í vinnunni svarar hann játandi fyrir utan nokkra daga inn á milli. „Þegar þú ert búinn að vera að vinna að einhverju mjög markvisst og svo klárast það… það er sigur. Þá verður samlokan betri, sko. En þegar maður er í tímaþröng þá er ekki svo gaman” segir Unnar sem segist svo vera í tímaþröng og hlær.

Til sýnis í kvöld verða andlitsmyndir sem annað hvort voru málaðar í dauðaþögn eða við hlustun hlaðvarpa þar sem uppistandarar rífast sín á milli, en það er gjarnan það sem Unnar hlustar á þegar hann er að vinna.

„Allir að koma með hjálm á sýninguna, þetta verður harkalegt” segir Unnar.

Sprengdar varir og stuð

Unnar er einn þeirra gesta sem koma fram á Lúðrasveitaballinu í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja á föstudaginn. „Þetta verður erfitt fyrir lúðrafólkið. Sprengdar varir og svona stuð” segir Unnar.

„Það er rosa metnaður lagður í þetta hjá Jarli og fólki og sveit þannig ég hlakka mikið til og gaman líka að þetta eru allt Eyjamenn að taka þátt í þessu.”