Einn þeirra sem gerðu sér leið til Vestmannaeyja um helgina til að taka þátt í gleðinni á Þjóðhátíð var hinn 23 ára gamli Dagur Steinn Elfu Ómarsson. Eftir fyrstu tvö kvöld hátíðarinnar hafi hann þó neyðst til að fara heim vegna lélegs hjólastólaaðgengis, en sjálfur notar Dagur hjólastól.

Dagur er mikill djammari og hefur gaman af því að vera í stuðinu en hann og starfsfólk hans hefur ekki góða reynslu af því að vera með hjólastól í mesta troðningnum á sunnudeginum.

„Staðan er þannig núna að í vinsælustu atriðunum þarf lágmark 4 til að standa við stólinn og hreinlega passa að fólk vaði ekki yfir mig eða detti á mig. Staffið pikkar í einhverja stóra og fær þá til að standa vaktina með sér. Þeir lenda svo í alls konar stælum og veseni með fólk. Þetta er glatað. Úr stólnum sést auðvitað ekkert á sviðið,” segir í færslu á Facebook-síðu Dags þar sem hann kallar eftir því að aðgengi verði bætt fyrir næstu hátíð.

Stingur upp á palli

Þá segir hann auðvelt að bæta aðgengi með því að bæta við palli fyrir hjólastóla, til dæmis við hliðina á hljóðbúrinu. Það færi ekki mikið fyrir pallinum sem þyrfti ekki að vera hár né fyrirferðarmikill. Pallur sem þessi myndi auka öryggi þeirra sem nota hjólastól til muna og myndi sjá til þess að þau gætu séð betur á sviðið.

„Það ætti líka að vera lágmarkskrafa hjá tónlistarfólkinu að það sé aðgengi fyrir alla þeirra aðdáendur á svona stórri hátíð. Nú þarf að rampa upp fyrir næstu hátíð. Þið getið örugglega fengið einhver góð fyrirtæki til að sponsa þetta – pallur fyrir okkur er ekki stór pakki í kostnaði en myndi skipta okkur svo miklu máli.”

Færsla Dags er birt hér að neðan með góðfúslegu leyfi hans. Hana má einnig sjá með því að smella hér.

Ljósmynd: Addi í London / Facebook