Formleg kæra frá Umhverfisstofnun er nú komin á borð lögreglunnar vegna ferðar Ágústs Halldórssonar á kajak til friðlýstu eyjunnar Surtsey. Lögreglan mun byrja á því að yfirheyra Ágúst vegna ferðalagsins, að því er fram kemur í frétt á mbl.is.

Surtsey sem myndaðist fyrir að verða sextíu árum síðan hefur verið friðlýst frá árinu 1965 og verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 2008. Því er nánast eingöngu veitt leyfi til vísindamanna til að koma til eyjunnar og þá í þeim tilgangi að rannsaka hana.

Ágúst kveðst vera sá fyrsti í heiminum til að róa á kajak til Surtseyjar en að það hafi þó verið fyrir slysni þar sem hann ætlaði sér fyrst til Geirfuglaskers en hafi lent í sjávarháska og neyðst til að fara upp á næsta þurra land, segir hann í samtali við K100.

Hann hafi passað sig að skilja ekki neitt eftir sig í eynni og ekki truflað neitt líf þar. Vegna lélegs símasambands þurfti Ágúst að klifra upp á vita til að hringja í föður sinn til að biðja hann um að koma og sækja sig á stærri bát.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið frá Surtsey sem Ágúst birti á samfélagsmiðlinum TikTok.

@agusthall

Fyrstur í heiminum til að róa á kayak út í Surtsey. 🙌🏼 Surtsey varð til í eldgosi árið 1963. 🤓

♬ I Wanna Be Adored – The Stone Roses

Ljósmynd: Skjáskot.