Fyrsta pysja haustsins er komin í hús en það var hún Eygló Rós Sverrisdóttir sem fann hana í nótt við Slippinn. Hún verður vigtuð í hádeginu og því næst sleppt. Þess má geta að einnig fannst pysja í Reykjavík í síðustu viku.

„Það er erfitt að segja til um það alveg strax en þetta gæti nú bara orðið mjög gott ár” segir Þóra Gísladóttir, rekstrarstjóri Sea Life Trust, í samtali við Eyjafréttir.

„Mér skilst að stofninn sé alveg í góðum málum þannig við erum að reikna með að þetta verði svolítið stórt í ár og það eru allir komnir í viðbragðsstöður fyrir komandi vikur.”

Pysjueftirlitið rafrænt

Á vefsíðunni www.lundi.is er að finna skráningarblað þar sem hægt er að setja inn fjölda pysja, þyngd, fundarstaði og nöfn þeirra sem þær finna. Einnig er hægt að hlaða upp myndum með hverri skráningu.

Hægt er að koma með pysjur í afgreiðsluna hjá Sea Life Trust að Ægisgötu 2 ef þær þurfa sérstaka aðhlynningu, t.d. ef þær eru litlar og dúnaðar, olíublautar, slasaðar eða þurfa sérstaka umönnun.

„Við erum líka komin með box fyrir utan hjá okkur á austurhliðinni þar sem verður hægt að koma með pysjur ef það er eitthvað sem að fólk vill að við kíkjum á” segir Þóra, en kassinn er þá hugsaður fyrir þær pysjur sem komið er með eftir lokunartíma. Hægt er að finna leiðbeiningar á kassanum.

Passa að vera með hanska

„Ég minni fólk á að vera með hanska ef þau sjá pysju, en það er mjög mikilvægt til þess að þær missi ekki fituna í fiðrinu. Passa síðan að vera ekki að leika með þær og tala við okkur ef það vakna spurningar eða ef það eru einhverjar áhyggjur af pysjunni” segir Þóra að endingu.

Ljósmynd: Aðsend.