Harald Teitsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa, telur merkingar við Herjólf vítaverðar og segir fjölda bifreiða hafa orðið fyrir tjóni þar síðustu ár.

Í samtali við mbl.is segir hann hann þrjú ár síðan hans félagsmenn hjá hinum ýmsu hópbifreiðafyrirtækjum voru að lenda í miklum vandræðum við landganginn hjá Herjólfi. Vörubifreið var ekið á landgöngubrú Herjólfs sl. þriðjudag þar sem miklar skemmdir urðu á brúnni. Harald segist hafa brugðið við fréttina.

Harald segir merkingarnar ábótavanar og bílstjóra oft eiga enga möguleika. Engin furða sé að þeir bílstjórar sem eru ókunnugir staðháttum keyri þar undir. „Þetta var svo illa merkt og svo hékk þarna stál­stöng yfir og pínu­lít­il merk­ing á henni þar sem stóð 3,8 metr­ar. Óvan­ir bíl­stjór­ar keyrðu bara und­ir þetta.“

Aldrei neitt gert

Loftræstibúnaður á þaki hópbifreiða hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Gray Line hefur tvisvar lent í slæmu tjóni. „Loft­kæl­ing­ar­kerfið er á toppn­um og það dúndr­ast í þetta og það eru bara fjór­ar-fimm millj­ón­ir í hvert skipti. Lík­lega hafa sex bíl­ar lent í tjóni þarna, tjón upp á kannski tutt­ugu millj­ón­ir, og Herjólf­ur gerði aldrei neitt. Við töluðum við þá, Rún­ar hjá Grayl­ine líka og fleiri. Þá feng­ust þau svör að það ætti að skoða þetta eitt­hvað en svo var aldrei neitt gert“ rifjar Harald upp fyrir blaðamanni mbl.is.

Merkja þurfi kirfilega

„Í fyrsta lagi ætti að vera búið að loka fyr­ir akst­ur þarna und­ir eða að minnsta kosti merkja þetta kirfi­lega svo menn séu ekki að gera þessi mis­tök aft­ur og aft­ur, þetta eru svo dýr mis­tök.“

„All­ir bíl­ar eiga að fara þarna og það er merkt þannig en svo eiga trukk­arn­ir að bíða í brekk­unni en ekki fara sömu leið og aðrir bíl­ar. Það er bara svo illa merkt að þeir fara sömu leið og sjá svo ekki merk­ing­una af því að hún er svo lé­leg. Við höf­um bent á þetta og varað bíl­stjóra við þessu en ef þetta er nýr maður þá keyr­ir hann á þetta, það er bara svo­leiðis“ segir Harald Teitsson að endingu.