Umræða um samgöngumál var meðal efnis á fundi bæjarráðs í gær. Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., kom á fund ráðsins og gerði grein fyrir stöðu félagsins það sem af er ári, m.a. rekstrartekjum og gjöldum, fjölda farþega og verkefni framundan.

Alls voru 89.771 farþegar í júlímánuði einum, sem er stærsti einstaki mánuður í farþegafjölda frá upphafi. Það sem af er þessu ári hafa 266.365 farþegar ferðast með Herjólfi, sem er rúmlega 16 þús. fleiri farþegar en á sama tíma í fyrra. Rekstur félagsins er á áætlun. Hörður Orri gerði jafnframt stuttlega grein fyrir stöðu viðræðna við Vegagerðina um áframhaldandi samning um rekstur Herjólfs.