Mágkonurnar Sara Renee Griffin og Una Þorvaldsóttir hafa skemmt gestum þjóðhátíðar síðan árið 2018. Þær stöllur komu fram saman á föstudagskvöldinu árið 2022 og 2023 en Sara kom einnig fram árið 2018. Sara steig fyrst á svið þegar hún vann söngvakeppni barna árið 2012 og fékk í kjölfarið að syngja á stóra sviðinu um kvöldið „sem var ótrúlega gaman 12 ára gömul“, segir Sara. Árið 2018 söng Sara einnig á þjóðhátíðinni en Una hlustaði á hana frá svölunum í Áshamrinum með viku gamalt barn. 

Fullkomin dúet 

Sara og Una hófu að syngja saman árið 2017 eftir að Una kynnist Devoni Már Griffin bróðir Söru. Fyrir þann tíma þekktust þær þó og vissu af hvor annarri. „Þegar ég byrjaði með Devoni árið 2017 þá leið ekki á löngu þar til að við byrjuðum að prófa að syngja saman og sáum bara hvað raddir okkar hljómuðu vel saman og fórum þá að æfa á fullu“, segir Una. „Það er fyndið að segja frá því að þegar Devon var ekki á föstu þá sagði ég alltaf við hann að hann mætti ekki finna sér kærustu sem myndi syngja betur en ég. Svo fann hann bara fullkomin dúet partner fyrir mig“, segir Sara. 

Gáfu út Þjóðhátíðarlag 

Þær eru sammála því að það sem stendur upp úr á þjóðhátíðinni er að fá að syngja, upplifunin og tækifærið. „Líka því maður er frá eyjum þá er þetta ennþá persónulegra sem okkur finnst fallegt. Einnig fengum við baksviðs passa svo við gátum alltaf skroppið baksviðs á kvöldin aðallega til þess að fara á klósettið, en einnig mjög gaman að rekast á aðra artista í jafnvel smá spjall“, segja þær. 

Árið 2021 gáfu þær út þjóðhátíðarlag sem ber heitið Ástarstrengur, en vegna covid faraldurs var engin þjóðhátíð það árið, „það var mjög svekkjandi en við fengum að eiga það inni og komum því fram árið 2022 og sungum þá lagið okkar ásamt nokkrum öðrum lögum, það var ótrúlega gaman.“
Á næsta árið verður þjóðhátið númer hundrað og fimmtíu haldin og þær ætla ekki að missa af því og segja það ekki verra ef þær fengju að koma fram á henni líka.  

Nýtt lag á nýju ári 

Markmið þeirra á nýju ári er að gefa út lag. „Mögulega svona sumarsmell sem okkur hlakkar til að fara pæla í. Annars bara að halda áfram að syngja útum allt. Við sungum í brúðkaupi 12. ágúst síðastliðin á Selfossi en það er akkúrat það sem við viljum vera að gera, syngja útum allar trissur“, segja þær að lokum. 

Greinina má einnig lesa í 16. tbl Eyjafrétta.